*

Matur og vín 17. maí 2013

Magnús Þór: Matarboð er ekki bara maturinn

Magnús Þór Gylfason lumar á mörgum góðum ráðum þegar halda skal hið fullkomna matarboð.

Lára Björg Björnsdóttir

„Mér finnst bæði mjög gaman að bjóða gestum heim og að elda góðan veislumat og nýt þess þá að elda rétti sem þarfnast undirbúnings og maður getur helst dundað sér við yfir daginn,“ segir Magnús Þór Gylfason, yfirmaður samskiptasviðs hjá Landsvirkjun og matgæðingur.

Magnús er hugmyndaríkur í eldhúsinu og humar er í sérstöku uppáhaldi hjá honum: „Humar er vinsælt hráefni, til dæmis í forrétt. Þá vel ég stórar skeljar, klippi rönd ofan af skipinu og þrýsti kjötinu upp og ofan á skelina og grilla þannig í örfáar mínútur í ofni. Síðan set ég smá salt og papríkukrydd. Þá verður humarinn sérstaklega fallegur. Ég ber hann síðan fram með hvítlauk og steinselju í bráðnu smjöri. Svo er algjör regla að henda ekki humarskeljunum því þær er hægt að nota í humarsúpugerð. Humarsúpa er með því ánægjulegra sem ég elda því hún tekur langan tíma, helst þarf maður að byrja að sjóða skeljarnar niður ásamt hvítlauk og grænmeti daginn áður.“

Matarboð eru síðan ekki bara maturinn að sögn Magnúsar Þórs heldur þarf að huga að ýmsu öðru: „Góðir fordrykkir, vandað vín með matnum, tónlistarval skiptir máli. Og líka að leggja fallega á borð og fleira. Það þarf að skapa góða stemmningu. Síðan er mjög mikilvægt að hafa gaman af matargerðinni og opna gott vín á meðan að eldað er.“ Og Magnús Þór er með ráð fyrir þá sem eru byrjendur í eldhúsinu: „Þeir sem eru óöruggir ættu að byrja á að halda sig við uppskriftir. Þeir sem eru heppnir geta svo hringt í mömmu sína eins og ég gerði þegar ég var að byrja. Mamma mín, Sigga Dóra, er besti kokkur sem ég þekki og ég hef lært mikið af henni. Mér tekst samt sjaldan að verða jafn snöggur og hún í eldamennskunni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.