*

Sport & peningar 19. desember 2012

Man. City tapar 93 milljónum punda

Manchester City heldur áfram að tapa peningum þó tapið minnki um helming á milli ára. Tekjur félagsins jukust verulega á árinu.

Enska knattspyrnuliðið Manchester City, sem jafnframt eru Englandsmeistarar, tapaði um 93,4 milljónum Sterlingspunda á síðasta fjárhagsári félagsins (2011-12), samanborið við tap upp á tæp 190 milljón pund árið áður. Rekstrartap félagsins nam á árinu 104 milljónum punda, samanborið við 195 milljón pund árið.

Þrátt fyrir töluvert tap á tímabilinu minnkar það þó um helming á milli ára. Tekjur félagsins jukust um 51% á tímabilinu samkvæmt frétt BBC um afkomu félagsins, og námu þá um 231 milljón punda. Þar af námu tekjur félagsins af þátttöku í Meistaradeild Evrópu um 22 milljónum punda. Þá hækkuðu tekjur Citi af styrktarsamningi við Etihad Airways um tæpan helming á milli ára, úr 48,5 milljónum punda í 97 milljónir.

Manchester City er sem kunnugt er í eigu Sheikh Mansour frá Abu Dhabi en hann keypti félagið árið 2008. Síðan þá hefur félagið staðið í töluverðum fjárfestingum. Þannig hefur félagið varið um 500 milljón pundum í leikmannakaup og um 200 milljónum í lagfæringar á leikvangi félagsins, starfsmannamál og aðstöðu leikmanna og starfsmanna. Í ársreikningi félagsins kemur fram að launakostnaður félagsins nam 178 milljónum pundum á tímabilinu. Alls eru 237 knattspyrnumenn á launum hjá félaginu og annar eins fjöldi af starfsmönnum.

Stikkorð: Manchester City