
Þrátt fyrir misjafnt gengi innan vallar er Manchester United á góðri leið með að verða fyrsta breska knattspyrnufélagið sem þénar yfir 500 milljónir punda á einu ári.
Tekjur félagsins á öðrum ársfjórðungi í fyrra jukust um 26,6% frá árinu á undan og voru 133,8 milljónir punda. Sjónvarpstekjur jukust um 31,3% og tekjur frá styrktaraðilum jukust um 1,6 milljón punda. Hins vegar drógust miðasölutekjur saman um 1,6%.
Manchester United situr í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar og er í hættu á miklu tekjutapi ef liðið kemst ekki í Meistaradeildina á næsta tímabili. Framkvæmdastjórinn Ed Woodward sagði að gott gengi utan vallar myndi hjálpa til við að styrkja stöðu liðsins inni á vellinum.
United er skráð í kauphöllina í New York en er þó í meirihlutaeigu bandarísku Glazer fjölskyldunnar.