*

Sport & peningar 11. september 2014

Manchester United sendir frá sér afkomuviðvörun

Slakt gengi enska úrvalsdeildarliðsins hefur skilað því að tekjur drógust talsvert saman á milli ára.

Stjórnendur breska úrvalsdeildarliðsins Manchester United hafa sent afkomuviðvörun frá félaginu þar sem hætt sé við því að slakt gengi liðsins á fyrri hluta árs hafi skilað því að tekjur félagsins verði minni en vænst var. Fram kemur í afkomuspánni að hagnaður og tekjur verði minni þar sem liðið hafi ekki komist í Meistaradeildina. Annað eins hefur ekki sést í sögu liðsins í 20 ár.

Gert er ráð fyrir að hagnaður Manchester United verði 23,8 milljónir punda á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er verulegur samdráttur á milli ára en á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn 146 milljónum punda. Þetta samsvarar 84% samdrætti. 

Tekjur félagsins í fyrra námu 433 milljónum punda sem var 19% aukning á milli ára. Gert er ráð fyrir að þær muni í ár fara niður í 385 til 395 milljónir punda.