*

Sport & peningar 11. janúar 2013

Manchester United vs. Liverpool: Sorginni drekkt í sósu

Manchester United og Liverpool mætast á sunnudag í úrvalsdeild enska boltans.

Stórliðin Manchester United og Liverpool mætast á Old Trafford á sunnudag. Viðskiptablaðið fékk nokkra eitilharða stuðningsmenn liðanna til að spá fyrir um úrslitin. Hér spá heilsugúrúinn og rithöfundurinn Ebba Guðný Guðmundsdóttir og Freyr Gígja Gunnarsson, fréttamaður á RÚV, um það hverjir muni hafa betur að leikslokum.

 

Orð eins og „erkifjendur“ er ekki nægilega sterkt til að lýsa æsingnum sem gýs upp þegar liðin mætast: „Við erum réttilega sigursælasta lið á Englandi“ jarma Liverpool menn og bæta við: „Hvernig er hægt að halda með liði sem er með djöfulinn sjálfan í skjaldamerki sínu?“ Á meðan tauta Manchester United menn „Það eru fáir á lífi sem muna eftir sigurgöngu Liverpool“ og „Hvað ætlar þetta mærðarlega pakk að lifa lengi á fornri frægð?“

En hvort liðið vinnur um helgina?

„Leikurinn fer tvö eitt fyrir United. Liverpool, mínir menn, komast yfir í leiknum og alveg fram á 90. mínútu læðist að manni sá grunur að þetta verði góður dagur fyrir mig og aðra þjakaða púlara. En svo endar þetta auðvitað allt á mjög kunnuglegan hátt; United skorar tvö mörk á lokamínútunum (þeir eru nefnilega sérfræðingar í slíku) og maður drekkir sorgum sínum í sósunni með sunnudagssteikinni...,“ segir Freyr Gígja.

Ebba Guðný trúir hins vegar á spádómsgáfu sonar síns. Hún segir: „Sonur minn, Hafliði segir 1-0 fyrir Man United, slegið!“

Stikkorð: Manchester United  • Liverpool