*

Ferðalög & útivist 4. apríl 2021

Manngerðir hellar á Suðurlandi

Eitt sem einkennir þennan landshluta er að frá Ölfusi og austur í Mýrdal er að finna tæplega 200 manngerða hella

Trausti Hafliðason

Suðurland er sérstætt að mörgu leyti. Eitt sem einkennir þennan landshluta er að frá Ölfusi og austur í Mýrdal er að finna tæplega 200 manngerða hella. Hellarnir voru gjarnan taldir til hlunninda, í sumum þeirra bjó fólk en flestir þerra voru notaðir sem fjárhús, hlöður eða geymslur.

Á meðal þekktustu manngerðu hellanna á Suðurlandi eru Hellnahellir í Landsveit, Laugarvatnshellir í Reyðarbarmi, miðja vegu milli Þingvalla og Laugarvatns, hellarnir við Hellu, og Rútshellir undir Eyjafjöllum. Fjallað er um málið í sérblaðinu Ferðalög & útvist, sem fylgdi Viðskiptablaðinu og er opið öllum til lestrar.

Laugarvatnshellir  

Laugarvatnshellir er manngerður móbergshellir. Upphaflega voru tveir hellar en skilrúm á milli þeirra hrundi. Fyrr á öldum var Laugarvatnshellir notaður sem sæluhús en í byrjun síðustu aldar var búið í honum. Eitt barnanna sem ólust upp í hellinum var Magnús Jónsson, sem lést árið 2013. Á meðan hann var á lífi kallaði hann sig síðasta núlifandi hellisbúann á Íslandi. Fyrir fjórum árum voru hellarnir endurgerðir í sem næst þeirri mynd sem þeir voru þegar búið var í þeim. Boðið eru upp á skoðunarferðir en nú yfir vetrartímann þarf að bóka á síðunni thecavepeople.is.

Hellarnir við Hellu

Hellarnir við Hellu eru við bæinn Ægissíðu við Ytri-Rangá. Alls eru tólf hellar á jörðinni og mikill leyndardómur umlykur þá því enginn veit með vissu hvenær þeir voru byggðir. Líkt og með Hellnahelli telja margir að þeir hafi verið byggðir af keltneskum landnemum fyrir komu norrænna manna til Íslands. Hellarnir hafa aðallega verið notaðir fyrir búfénað, hey og matvæli. Einn þeirra var síðan notaður sem íshús eða frystigeymsla á fyrri hluta síðustu aldar. Í vetur hafa verið skipulagðar ferðir um hellana einu sinni í viku en í sumar verður fjölgað í þrjár ferðir í viku. Hægt er að nálgast upplýsingar á vefsíðunni cavesofhella.is.

Hellnahellir

Hellnahellir er lengsti manngerði hellir á Íslandi um það bil 50 metra langur og víðast er lofthæðin 3 til 5 metrar. Útgönguleiðir eru hvort á sínum endanum og í hellinum eru fimm upphlaðnir strompar, sem gerðir hafa verið til að hleypa birtu inn og reyk út frá eldstæðum. Hellirinn er byggður inn í fjallshlíð Skarðsfjalls og liggur hann það langt undir yfirborðinu að í hinum endanum frýs ekki. Raunar er hitastigið inni í hellinum svipað allt árið. Ekki er vitað hversu gamall hellirinn er en tilgátur hafa verið uppi um það að hluti hans sé frá tíð Papa, írskra munka sem settust að á Íslandi. Sé það rétt er hellirinn meira en þúsund ára gamall. Hellnahellir er til sýnis ferðamönnum með leyfi landeigenda. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á hellar.is

Nánar er fjallað um málið í Ferðalög & útivist, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Hægt er að nálgast blaðið hér.

Stikkorð: útvist  • hellar