*

Veiði 5. febrúar 2017

Margar ár að verða uppseldar

Framkvæmdastjóri Stangaveiðifélags Reykjavíkur segir að nánast sé uppselt í Hítará, Langá og Haukadalsá.

Trausti Hafliðason

Ari Hermóður Jafetsson, framkvæmdastjóri Stangaveiðifélags Reykjavíkur (SVFR), segir að sala veiðileyfa hafi gengið mjög vel.

SVFR er með fjölmargar ár á leigu. Félagsmenn fá 20% afslátt af veiðileyfum og geta sótt um leyfi í byrjun hvers árs þegar úthlutun fer fram. Nokkrum mánuðum áður fer fram svokölluð forúthlutun, sem er öllum opin en þá er enginn afsláttur gefinn. Í forúthlutuninni eru ákveðnir dagar í boði, mest yfir háannatímann.

„Nánast allir dagar sem voru í boði í forúthlutuninni í Hítará, Haukadalsá og Langá seldust," segir Ari Hermóður. „Það er útlit fyrir að þessar ár séu nánast að verða uppseldar. Einnig hefur gengið mjög vel að selja leyfi í Andakílsá, Fáskrúð, Gljúfurá og Grjótá og Tálma. Ég á því ekki von á að framboðið verði ekki mikið þegar veiðileyfi fara í almenna sölu núna eftir nokkrar vikur."

Ari Hermóður segir mikinn samdrátt í sölu til útlendinga. „Sérstaklega eru Bretarnir að halda að sér höndum og þar spilar gengisþróunin inn í og Brexit."

Að sögn Ara Hermóðs mætti salan vera betri á urriðasvæðin í Laxá í Laxárdal og Laxá í Mývatnssveit.

„Við lækkuðum verð í Laxárdalnum um 10 til 15% og breyttum verðstrúktúrnum í Mývatnssveitinni þannig að það er jafnara verð yfir allt sumarið, sem þýðir að veiðileyfi í júlí lækkuðu töluvert í verði."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu 26. janúar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.