*

Sport & peningar 25. mars 2017

Margar kúlur í spilunum

Verðlaunaféð sem stendur Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur til boða í LPGA-mótaröðinni nemur tugum milljóna á hverju móti.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir braut blað í íslenskri golfsögu undir lok síðasta árs þegar hún tryggði sér sæti í sterkustu golfmótaröð heims í kvennaflokki, LPGA-mótaröðinni. Þarna stimplaði Ólafía sig inn með bestu golfurum heims og hefur hún þegar tekið þátt í þremur mótum á árinu.

Fyrir fyrstu þrjú mótin hefur Ólafía Þórunn fengið 11.788 Bandaríkjadali í verðlaunafé, eða tæpar 1,3 milljónir króna. Er hún í 95. sæti yfir þá sem hafa fengið mest verðlaunafé á árinu til þessa.

Í efsta sætinu er hin taílenska Ariya Jutanugarn sem hefur sankað að sér tæpum 350.000 dölum á árinu, eða 38 milljónum króna, á fimm mótum. Heildarverðlaunafé á hverju móti er yfirleitt um 1,5 milljónir Bandaríkjadala en stundum mun hærra.

Þannig verður verðlaunaféð fimm milljónir dala, eða rúmur hálfur milljarður króna, á U.S. Women‘s Open í júlí næstkomandi. Alls er verðlaunaféð á 35 LPGA-mótum ársins samtals yfir 67 milljónir Bandaríkjadala og er um að ræða talsverða hækkun á milli ára.

Áðurnefnd Ariya Jutanugarn þénaði mest allra leikmanna LPGA-mótaraðarinnar í fyrra, eða yfir 2,5 milljónir dala. Hin nýsjálenska Lydia Ko var í öðru sæti með svipaða upphæð. Alls þénuðu 15 kylfingar í LPGA-mótaröðinni yfir milljón Bandaríkjadali á síðasta ári. Því er ljóst að tekjumöguleikar Ólafíu í mótaröðinni eru ansi miklir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.