*

Bílar 10. maí 2015

Margir í kauphugleiðingum á ,,Allt á hjólum"

Bílasýning Bílgreinasambandsins ,,Allt á hjólum” hófst í Fífunni í gærmorgun og um 12 þúsund gestir létu sjá sig.

Það er mikið af glæsilegum bílum í Fífunni og margar frumsýningar hjá bílaumboðunum. Glæsilegir sportbílar eru áberandi á sýningunni. Jaguar F-Type fær sinn skerf af athyglinni sem og glænýr Audi TT en báðir eru þeir frumsýndir í Fífunni. Margir muna kannski eftir skemmtilegri auglýsingu sem tekin var upp hér á landi þar sem Audi TT lendir á palli eftir ferðalag úr geimnum. Þá er nýjasta útfærslan af Porsche 911 Targa 4S á staðnum ásamt elstu útgáfunni af Targa frá 1970.

Lúxusbílarnir heilla klárlega marga. Sviðsljósið beinist m.a. að nýjum Mercedes-Benz S-Class Plug-in Hybrid sem er lúxustvinnbíll í S-línunni, flaggskipi þýska lúxusbílaframleiðandans. Annar þýskur eðalbíll Audi A6 er frumsýndur og Lexus teflir fram IS 300h F-sport.

Range Rover Sport og Discovery Sport eru tignarlegir í salnum sem og nýr VW Touareq. Nýr Honda CR-V er frumsýndur og hinn rennilegi Lexus NX 200t F-sport nýtur sín vel. BMW X4 og hinn stæðilegi Kia Sorento sömuleiðis. Þá eru rafmagnaðir rafbílar í Fífunni um helgina. Umhverfismildir Nissan Leaf, Nissan eNV200, Renault Kangoo EV, Golf e og Kia Soul EV eru allir til sýnis. Gestir geta kynnt sér hvað rafbílavæðingin hefur upp á að bjóða.

Toyota er í af­mæl­is­skapi og kynn­ir sér­stak­ar út­gáf­ur af Land Cruiser 150 og hinum vinsæla Yaris í til­efni 50 ára af­mæl­is Toyota á Íslandi. Og fleiri fagna afmæli á árinu því Bílaumboðið Askja er 10 ára og stillir m.a. upp sportlegum Mercedes-Benz CLA Shooting Brake og kraftmikils CLA 45 AMG auk S-Class Plug-in Hybrid sem áður er minnst á.

Millistærðar fólksbílar eru alltaf vinsælir og þeir eru margir spennandi í Fífunni. Nýr Golf R er kynntur til leiks og er með kraft í kögglum. Aflið er ekki síðra í Opel Astra OPC sem er á svæðinu sem og nýr Audi A3 etron. Suzuki kynnir nýjan Swift Sport og tékkneski bílaframleiðandinn Skoda afhjúpar tvo nýja bíla Fabia og Superb.

,,Það hefur verið gerður góður rómur að sýningunni enda mikill metnaður sem við höfum lagt í hana ásamt bílaumboðunum og fleirum tengdum bílgreininni. Fólk er mjög áhugasamt og greinilega margir í kauphugleiðingum," segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins. Sýningin er opin í dag kl. 12-17.

 

 

 

 

 

Stikkorð: Allt á hjólum