*

Hitt og þetta 16. júní 2013

Margir losa sig við nagdýrin og fiskana

Gerður Marísdóttir í Dýraríkinu segir verslunina selja aftur dýr sem fólk hafi losað sig við áður en það fór í sumarfrí.

Fjölmargir losa sig við nagdýr og fugla fyrir sumarfrí og fá sér síðan ný að hausti samkvæmt upplýsingum frá Dýraríkinu. Algengt er að fólk komi í Dýraríkið með hamstra og önnur nagdýr sem Dýraríkið selur síðan aftur. Eitthvað er líka um það að dýr séu skilin eftir ein heima dögum saman þegar fjölskyldan fer í sumarfrí.

En geta einhverjar tegundir gæludýra verið ein heima í nokkra daga?

„Hamstrar geta tæknilega séð verið einir heima í tvo til þrjá daga ef þeir eru með aukavatn, nagstangir og fulla skál af mat. Einnig eru til sjálfvirkir fóðurgjafar fyrir fiskabúrin. En við mælum aldrei með því að fólk skilji dýrin eftir í marga daga því auðvitað geta þessi tæki klikkað,“ segir Gerður Marísdóttir, starfsmaður Dýraríkisins.

Og hvað með fuglana?

„Fuglar geta ekki verið einir heima í meira en sólarhring. Fuglar eru félagsverur og síðan eiga þeir það til að skíta í eigið vatn og því er ekki hægt að hafa fuglinn einan dögum saman,“ segir Gerður.