*

Matur og vín 26. janúar 2014

María Björg: Einfaldasti maturinn bestur

María Björg heldur úti matarbloggi sem heitir Krydda eftir smekk sem hefur vakið athygli fyrir listræna framsetningu og gómsæta rétti.

Lára Björg Björnsdóttir

María Björg fann fyrir því að vinir og fjölskylda voru oft í vandræðum með hvað þau ættu að hafa í matinn og vantaði innblástur. Þannig kviknaði hugmyndin að blogginu Krydda eftir smekk. „Auk þess hafði ég alltaf haft gaman af því að taka ljósmyndir svo ákvað bara að skella þessu á bloggið. Ég er ekki með neinar byltingarkenndar uppskriftir en ég lít fyrst og fremst á bloggið sem leið til að veita lesendum innblástur og skapa vist andrúmsloft. Mér þykir gaman að fjalla aðeins um matinn, hráefnið, matarmenningu og hefðir. Að mínu mati er oft einfaldasti maturinn bestur og er þetta yfirleitt spurning um hráefnið og alúðina sem fer í matarundirbúninginn,“ segir María Björg.

María Björg notar árstíðirnar í matargerðina, en þær séu öfgakenndar og ólíkar og hún segir stemninguna í veðrinu gera mikið fyrir matarupplifunina. „Mér finnst smekklegast að fylgja árstíðunum í mataræði háð veðri og birtu hverju sinni. Í nóvember er til dæmis viðeigandi að elda hægeldaða pottrétti með rauðvíni og grófum kryddjurtum eins og rósmarín eða timjan. Á sumrin er hins vegar gott að borða köld salöt, þroskaða tómata, skelfisk og mjúkar sumarkryddjurtir eins og kóríander og basil. Þrátt fyrir að aðgengi sé að innfluttu grænmeti allan ársins hring er skemmtilegra að fylgja því sem er „árstíðabundið“. Persónulega finnst mér kalt mozzarella og tómatsalat bara ekki bragðast vel í myrkri og þriggja stiga frosti miðað við að njóta þess á sólríkum degi undir berum himni.“

Nánar er rætt við Maríu Björgu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.