*

Tölvur & tækni 6. nóvember 2012

Markaðshlutdeild Apple minnkar milli fjórðunga

Apple er enn með um helminginn af heimsmarkaði með spjaldtölvur, en markaðshlutdeildinn hefur dregist hratt saman á árinu.

Hlutdeild Apple á heimsmarkaði fyrir spjaldtölvur hefur dregist heilmikið saman á síðustu sex mánuðum, að því er segir í frétt Financial Times. Þar kemur fram að Apple hafi átt um tvo þriðju hluta af heimsmarkaðnum, en hlutdeildin sé nú rétt ríflega um 50%.

Nýja dvergútgáfan af iPad spjaldtölvunni frá Apple, iPad Mini, seldist upp þegar hún fór á markað um hlegina, en keppinautarnir Samsung og Amazon sækja hart að risanum í Cupertino. Þá á eftir að koma í ljós hvernig Surface tölvan frá Microsoft fer í neytendur.

Android stýrikerfið er orðið ráðandi á snjallsímamarkaði og eftir nokkra bið eru spjaldtölvur með Android kerfinu farnar að sækja á. Á þriðja ársfjórðungi var Samsung með um 18,4% af spjaldtölvumarkaðnum og Amazon er með um 9% með Kindle Fire tölvurnar.

Stikkorð: Apple  • Android  • Samsung  • Amazon  • App