*

Heilsa 19. janúar 2014

Markmiðið að ganga á Esjuna vikulega

Eggert Benedikt Guðmundsson er duglegur við að hreyfa sig. Hann fer í leikfimi tvisvar i viku og reynir að ganga reglulega á Esjuna.

Fastur punktur í heilsurækt Eggerts Benedikts Guðmundssonar, forstjóra N1, er leikfimi á þriðjudags- og föstudagsmorgnum. „Við erum svona tuttugu karlar sem mætum til Gauta Grétarssonar sjúkraþjálfara í leikfimi. Þetta er fjölþætt leikfimi, en hún er að vísu farin að taka mið af því að meirihlutinn er dottinn í golfið. Æfingarnar snúast því gjarnan um að gera menn klára í golfsumarið,“ segir Eggert Benedikt.

Hann segist líka reyna að ganga með hundinn. „Við eigum Golden Retriever tík sem er þakklát fyrir alla hreyfingu sem hún fær, en hún mætti e.t.v. vera grimmari í að draga mann út að labba. Þá er markmiðið að ganga á Esjuna um hverja helgi, en það næst ekki alltaf. Á sumrin spila ég golf eins og ég get og þá förum við fjölskyldan gjarnan í eina fjögurra daga gönguferð og oftar en ekki eru það Hornstrandir sem verða fyrir valinu,“ segir Eggert.