*

Sport & peningar 18. mars 2013

Marsbrjálæðið kostar 134 milljónir dala

Fjöldamargir Bandaríkjamenn ætla að stelast til að horfa á körfuboltaleiki í vinnunni næstu vikurnar.

Á morgun hefst úrslitakeppnin í körfuboltakeppni bandarískra háskóla en hún hefur löngum verið kölluð Marsbrjálæðið, eða March Madness. Áhuginn á keppninni er gríðarlegur í Bandaríkjunum og margir segjast ætla að horfa á körfuboltaleiki á vinnutíma eða jafnvel að hringja sig inn veika til að geta notið leikja í friði.

Í frétt Huffington Post segir að samanlagður kostnaður bandarískra fyrirtækja vegna þessa muni nema 134 milljónum dala fyrstu tvo dagana, þ.e. á þriðjudag og miðvikudag. Miðað við niðurstöður kannana ætla um 14% starfsmanna að horfa á leiki í þrjá til fjóra tíma á dag og sextán prósent ætla að verja meira en fimm tímum í að horfa á körfuboltaleiki.

Þá hafa 12 prósent viðurkennt að þeir hafi áður hringt sig inn veika til að tryggja að þeir missi ekki af mikilvægum leik. Í frétt HuffPo er þó haft eftir John A. Challenger, forstjóra bandarískrar vinnumiðlunar, að vinnuveitendur geti litið á þennan tapaða vinnutíma sem fjárfestingu til lengri tíma þótt hún sé dýru verði keypt. Með því að leyfa starfsmönnum að horfa á íþróttaleiki á vinnutímanum geti þeir aukið vinnugleði þeirra og þar með framleiðnina.

Stikkorð: Bandaríkin  • Körfubolti  • Bandaríkin