*

Menning & listir 9. maí 2012

Marta María fann einbýlishúsið sitt

Tískublaðamaðurinn féll fyrir fimmtíu ára gömlu Sigvalda-húsi í smáíbúðahverfinu. Stjörnuarkitekt teiknaði hluta hússins að innan.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Tískublaðamaðurinn Marta María Jónasdóttir, sem stýrir Smartlandi Morgunblaðsins, hefur löngum sýnt húsnæðiskaupum þekktra Íslendinga áhuga. Nú er komið að henni sjálfri, en hún og maður hennar hafa fest kaup á einbýlishúsi í Brekkugerði í Reykjavík. 

Húsið er 232 fermetrar að flatarmáli. Það var byggt árið 1961 og eitt þeirra húsa sem kennd eru við Sigvalda Þórðarson arkitekt. Hús Sigvalda, sem flest voru byggð í á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar, bera sterk einkenni arkitektsins. Húsið við Ægissíðu 80 sem friðað var árið 1999 teiknaði Sigvaldi. Það var reist árið 1958 og þykir með merkustu íbúðarhúsum á sjötta áratug síðustu aldar í listrænu tilliti.

Marta María bjó með manni sínum og börnum tveimur í Ljósalandinu í Fossvogi og seldi það í vor. Þau keyptu húsið í Brekkugerðinu í mars af því fólki sem reisti húsið á sínum tíma og hafði búið þar frá upphafi. 

Innréttingar og klæðningar í Brekkugerðinu voru upprunalegar og hafa umfangsmiklar framkvæmdir verið í gangi, sem fela m.a. í sér að hreinsa út innréttingar, gólfefni og loftklæðningu. Innanhússarkitektinn Hanna Stína hefur hannað hluta af nýju rými húsins. Hanna Stína er með þekktari innanhússarkitektum landsins en hún teiknaði m.a. skrifstofu Novator í London og innanhúss hjá Kristínu Pétursdóttur í Auði Capital í Hafnarfirði. 

Ashkenazy-gatan

Brekkugerðið var á árum áður kölluð Ashkenazy-gatan en hjónin og tónlistarmennirnir Vladimir Ashkenazy og Þórunn kona hans og börn þeirra fluttu í Brekkugerði 22 eftir dvöl í London árið 1968. Nokkrum árum síðar fengu þau úthlutað tveimur einbýlishúsalóðum í Brekkugerði 8 og reistu þar einbýlishús sem sérniðið var að þeirra þörfum. Bolli Kristinsson, löngum kenndur við verslunina 17, býr nú í húsinu.

Marta María og fjölskylda stefnir á að flytja inn í húsið í Brekkugerðinu í lok mánaðar.