*

Matur og vín 15. júlí 2015

Matarmarkaður í Reykjavík

Nú er matarmarkaður við Hlemm á teikniborðinu og á hann að gæða efri hluta Laugavegar auknu lífi.

María Gísladóttir

Mannlíf og verslun í miðborg Reykjavíkur hefur stóraukist á síðustu árum. Áhersla hefur verið lögð á styrkingu Laugavegar, meðal annars með vönduðu viðhaldi og þéttingu götumyndar. Þar er fólk á ferli alla daga og enn meira um að vera um helgar. En þegar komið er upp fyrir Vitastíg snarminnkar umferðin. Þar virðast verslanir skammlífar og andrúmsloftið er allt daufara eftir því sem nær dregur Hlemmi.

Í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur er Hlemmur skilgreindur sem þróunarsvæði í forgangi. Eitt markmiðið er að bæta tengingu við miðbæinn og draga fleiri ferðamenn og helgarspókara ofar á Laugaveginn. Uppbygging er þegar hafin á áður vannýttum lóðum og til stendur að létta á strætisvagnaumferð við Hlemmtorg og opna það þannig fyrir annars konar lífi en því sem tengist skiptistöð fyrir strætisvagna. Mikilvægur liður í því að auka aðsókn og umferð um Hlemm er að gefa svæðinu nýtt og aðlaðandi hlutverk og er Dagur B. Eggertsson borgarstjóri meðal þeirra sem talað hafa fyrir því að þar verði opnaður matarmarkaður.

Matarmarkaðir eru tilvalinn vettvangur fyrir minni matvöruframleiðendur til þess að koma vöru sinni á framfæri en sá möguleiki hefur ekki verið til staðar hér á landi nema í tilraunaskyni endrum og eins. Umræða um lýðheilsu- og umhverfismál hefur vakið meðvitund almennings og áhuga á að draga úr iðnvæðingu í matvælaframleiðslu. Eftirspurn eftir einfaldri, hreinni og hollri matvöru hefur aukist, neytendur vilja vita hvaðan varan kemur og gjarnan styrkja innlenda framleiðslu.

Hlemmur vænlegur kostur

Hugmyndir um matarmarkað í Reykjavík hafa víða sprottið upp að undanförnu, til dæmis í bloggfærslum og blaðagreinum áhugafólks sem og skólaverkefnum arkitektanema. Tilraunir hafa verið gerðar með fiskmarkað við Grandagarð og matarmarkað í Hörpu. Götuveitingamarkaðurinn Krás í Fógetagarðinum hlaut góðar viðtökur í fyrrasumar og verður leikurinn endurtekinn í ár. Einnig hafa komið fram hugmyndir um allsherjar matarmarkað við Reykjavíkurhöfn og við Hlemm. Hugmyndunum hefur verið vel tekið en ekkert varanlegt hefur komið út úr þessu enn sem komið er. Með borgarstjóra sem talsmann gæti það nú staðið til bóta.

Reykjavíkurborg hefur þegar auglýst eftir rekstraraðilum að matarmarkaði við Hlemm. Trípólí arkitektar hafa birt úttekt á svæðinu, ásamt tillögu að breytingum á torginu og biðstöðvarhúsinu sjálfu sem reist var árið 1978 eftir teikningum Gunnars Hanssonar arkitekts. Húsið hlaut menningarverðlaun Dagblaðsins árið eftir sem „merkasta framlagið til íslenzkrar byggingarlistar árið 1978“. Í umsögn dómnefndar sagði meðal annars: „Hér er um algerlega nýja tegund af byggingu að ræða hér á landi, sem gefur fólki möguleika á því að hittast, verzla og bíða eftir vögnum í hlýju, aðlaðandi og gróðursælu umhverfi, hvernig sem viðrar“.

Trípólí arkitektar leggja til að lokuð rými við útveggi verði fjarlægð, sem og litfilmur í gluggum, til þess að auka gegnsæi hússins. Eftir stendur stál- og glergrind utan um opið rými undir sérstöku þaki sem ljáir salnum bæði ofanlýsingu og karakter.

Nánar er fjallað um málið í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Hlemmur  • Matarmarkaður