*

Matur og vín 7. mars 2014

Veitingahúsarýni: Traust lúga

Eftir vinnu kíkti á nokkra skyndibitastaði í borginni.

Lára Björg Björnsdóttir

Matarrýnir Eftir vinnu fór í heimsókn á Aktu taktu: 

Einn helsti styrkleiki Aktu taktu er að þeir útbúa hamborgarana, samlokurnar og franskarnar um leið og pantað er. Þeir sem kunna að meta góðan skyndibita vita hvers lags svik það eru að fá volgar eða jafnvel kaldar franskar og hálftíma gamlan hamborgara með köldu kjöti og volgu grænmeti.  

Afgreiðslan á Aktu taktu getur tekið sinn tíma en maður er fljótur að gleyma því þegar sjóðandi heitur borgarinn og glóandi franskarnar koma svífandi inn um bílgluggann. Sjálfur hamborgarinn er þó helst til þunnur en fyrir sósufólk þá bætir vel heppnuð sósan upp rýra buffið.

Samloka með skinku og osti er ekki alltaf nógu mikið ristuð svo brauðið er stundum full mjúkt og hálf blautt í umbúðunum. Þó skal taka fram að samlokan er samt bragðgóð og sumum finnst þetta einmitt kosturinn við lokuna. Og aftur kemur vel útilátin og bragðgóð sósan til bjargar hér. Það mætti samt alveg splæsa auka ostsneið á samlokuna.

Og þá að aðalsmerki Aktu taktu sem eru frönsku kartöflurnar. Þær eru vel útilátnar, alltaf sjóðandi heitar, passlega feitar og vel kryddaðar. Þetta síðastnefnda kemur sér sérstaklega vel því þetta er jú bílalúga svo það er hvimleitt að þurfa að standa í kryddun/ söltun með tilheyrandi vitleysisgangi þegar brunað er út af planinu og inn á hraðbrautina með pokann í fanginu.

Nánar er fjallað um veitingastaðinn Aktu taktu, Búlluna, KFC og Subway í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út með Viðskiptablaðinu í dag. Þar er farið nákvæmlega yfir einstaka rétti og einnig fjallað um þjónustu á viðkomandi stöðum. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.

Stikkorð: Stuð  • Aktu taktu  • Namm