*

Matur og vín 17. júní 2013

Matur, tónlist og stanslaust stuð á Vagninum á Flateyri

Brynhildur Einarsdóttir mælir með Vagninum á Flateyri fyrir þá sem eru á leið vestur.

Lára Björg Björnsdóttir

„Það er tvímælalaust Vagninn á Flateyri. Síðustu tvö ár hafa kokkarnir Atli og Númi rekið Vagninn með frábærri þjónustu og stórkostlegum mat. Ef til vill þekkja fleiri þá sem kokkana á veitingastaðnum Snaps," segir Brynhildur Einarsdóttir, menntaskólakennari, spurð hvar henni finnst best að fara út að borða úti á landi.

Hún segir hráefnið vera leynivopnið á Vagninum: „Það sem gerir Vagninn að þessum góða og sérstaka veitingastað er að allt hráefnið er frá Önundarfirði. Önfirskt lambakjöt frá Kirkjubóli í Valþjófsdal, ferskur fiskur er í aðalhlutverki enda ekki langt að sækja fiskinn og hægt að fá reyktan svartfugl sem veiddur er í fjarðarmynninu. Matreiðslan er líka stórfengleg og réttirnir hver öðrum betri. Ég hef fengið marga í heimsókn til mín Vestur og alltaf förum við út að borða í Vagninum og niðurstaðan er alltaf sú sama, allir eru himinlifandi og brosa út að eyrum eftir máltíðina." 

Og Brynhildur segir Vagninn ekki bara frábæran veitingastað: „Vagninn er líka bar, og ekki bara venjulegur bar, heldur bar á undan sinni samtíð eins og Guðbjartur Jónsson orðaði það í útvarpsviðtali á Rás tvö þegar Vagninn var stofnaður. Fjölbreytt mannlíf einkennir Vagninn og hefur alltaf gert. Matur, tónlist og stanslaust stuð. Þetta er auðvitað stórkostleg blanda," segir Brynhildur og mælir að lokum með nokkrum réttum: 

  •  Saltfiskur að hætti portkonunnar, tómatur, basiliksósa, ólífur, kapers og annsjósur.
  •  Svartfugl með bláberjasósu og meðlætið fer eftir stemmingu dagsins.
  •  Önfirskt lambakjöt með soðsósu og steinseljurrótarmauki og heimalögðu rauðkáli.