*

Matur og vín 20. október 2013

Maturinn og vinnustaðurinn: Leynimegrun og ruslakistan

Þegar fólk vinnur saman allan daginn þá kemur fyrir að það þurfi að borða í viðurvist hvert annars.

Lára Björg Björnsdóttir

Stundum myndast allsérstök stemning í kringum matartíma á vinnustöðum þegar fólk kemur út úr skápnum matartýpulega séð. Skoðum nokkra algenga matarpersónuleika á vinnustaðnum. Þið vitið hverjir þið eruð.

Ruslakistan: Þessari manneskju er alltaf alveg nákvæmlega sama hvað er í matinn í mötuneytinu eða í kjötborðinu í matvörubúðinni nálægt vinnustaðnum. Þessi týpa veit ekki hvað matvendni er og er alltaf til í allt. Ruslaskistan óttast hvorki dagsetningar með síðasta söludegi né vafasamar innihaldslýsingar. Hún lítur á það sem áskorun þegar einhver segir: „Ætlar þú í alvörunni að borða þetta?“ eða: „Þú veist hvað er í þessu, er það ekki?“ Ruslakistan er aldrei með neitt vesen og er í raun hvers manns hugljúfi þegar kemur að áti. Hún skiptir sér líka sjaldnast af því sem aðrir láta ofan í sig. Það kunna þó ekki allir að meta ruslakistuna og hún er gjarnan dæmd fyrir neysluvenjur sínar. Komum að þeim týpum hér á eftir.

Manneskja í leynimegrun: Það er ekkert sérstaklega töff að vera alltaf í megrun og það veit þessi týpa manna best. Þess vegna felur hún megrun sína fyrir heiminum með tveimur aðferðum sem eru í raun það ólíkar að tala má um tvær týpur sem þó hafa nákvæmlega sama markmið.

Leynimegrunartýpa A): Hún talar fjálglega um hversu mikið hún borðar, og þá aðallega hversu mikið af óhollustu hún borðar, og hvetur aðra til dáða í ofáti um leið. Hún er fyrst til að hrópa „förum á Hlölla“ þegar klukkan nálgast tólf en þegar kemur að sjálfri hópferðinni og slefandi vinnustaðurinn er orðinn óður í Hlöllasósu og frönnur þá er hún skyndilega upptekin á símafundi. Hún kemur líka oft með „afganga“ í vinnuna eins og þriggja hæða súkkulaðiköku eftir barnaafmæli sem virðist vera einu sinni í mánuði hjá henni. Þetta er manneskjan sem tekst að láta alla á vinnustaðnum halda að hún sé hið mesta matargat en við nánari umhugsun hefur enginn nokkurn tímann séð hana borða.

Leynimegrunartýpa B): Hún lætur alla halda að hún sé með sjálfsaga Búddamunks þegar kemur að hollustu og heilsuvitund. Hún hefur séð ljósið og er með sjálfskipað doktorspróf í næringar- samsetningu hráfæðis, safakúrum og áhrifum hveitigrass á þveitikerfi líkamans. Þegar vinnustaðurinn pantar pitsu eða húrrast saman á jólahlaðborð fer hún með bænir og sprei-ar opna vinnurýmið með Evianvatni með engifer. Engum dettur nokkurn tímann í hug að bjóða henni að bragða á neinu því sem aðrir dauðlegir menn japla á frá degi til dags. Hún er á sérfæði sem enginn annar skilur og þannig tekst henni að vera í eilífri megrun án þess að upp um hana komist.

Nánar er fjallað um alls konar matartýpur á vinnustaðnum í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.

Stikkorð: Matur  • Gaman  • Rugl