*

Matur og vín 19. október 2013

Maturinn og vinnustaðurinn

Sérstök stemning getur myndast í kringum matartíma á vinnustöðum.

Lára Björg Björnsdóttir

Þegar fólk vinnur saman allan daginn þá kemur fyrir að það þurfi að borða í viðurvist hvert annars. Stundum myndast allsérstök stemning í kringum þessa matartíma þegar fólk kemur út úr skápnum matartýpulega séð. Skoðum nokkra algenga matarpersónuleika á vinnustaðnum. Þið vitið hverjir þið eruð.

Mataróþolstýpan: Þetta er týpan sem tekur enga sénsa þegar kemur að mat og lítur á appelsínusafa sem „unna fæðu“ sem ber að varast. Hún er boðberi glútenhaturs, hveiti er duft úr vítispyttum heljar og mjólk er safi hinna illu afla. Þetta er manneskjan sem tekur fólk sem geispar í vinnunni fyrir og spyr hvort það sé nokkuð búið að prófa að taka alla fæðu sem byrjar á Þ út úr mataræði sínu (Þ fyrir þreytu) og dregur upp astmapústið þegar einhver í vinnunni kemur með mat í bréfpoka merktum skyndibitastað.

Klisjukóngurinn: Klisjukóngurinn er sérlega krefjandi týpa á vinnufélaga sína. Hann er stefnulaus með eindæmum og tuðar út í eitt um hinn og og þennan kúrinn sem þá stundina er eina vitið þegar kemur að mat og áti. Í nokkrar vikur er hægt að leyfa sér allt bara ef maturinn er „hreinn“. Síðan er allt í einu bannað að borða mat nema hann komi beint frá býli og sé blessaður af jógameistara. Klisjukóngurinn eltist við mat eins og tísku en hefur ekkert vit á málunum og er alltaf að apa upp eitthvað sem hann heyrði frá einhverjum. Hann kemur með hnetubuff í vinnuna því Gylfi frændi hans var að segja honum að hann yrði að borða hnetubuff einu sinni í viku. Næsta dag kemur hann með ferskt pasta í boxi því einhver fussaði og sveiaði í heita pottinum yfir því hvað óferskt pasta væri mikið ÓGEÐ. Klisjukóngurinn mundi taka hangikjötssneið og dýfa henni ofan í marmelaði ef hann sæi Dorrit gera það.

Nánar er fjallað um alls konar matartýpur á vinnustaðnum í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.

Stikkorð: Matur  • Gaman  • Rugl