*

Matur og vín 3. júlí 2015

Matvælastofnun passar upp á grilláhugafólk

MAST hefur gefið út tilmæli til þeirra sem ætla að vera duglegir við að grilla í sumar. Teflon er bannað við grillið.

Matvælastofnun minnir grilláhugamenn á að þvo sér um hendurnar áður en gengið er til verks. Gæta þarf þess að kjöt eða safi úr kjöti komist ekki í snertingu við matvæli sem eru tilbúin til neyslu svo sem grænmeti og kaldar sósur. Þetta kemur fram í leiðbeiningum frá stofnuninni.

MAST bendir á að ef grillmatur brennur við á grillinu þá myndast krabbameinsvaldandi efni. Því þarf að skera brennda hluta af áður en matvælanna er neytt.

Á meðal annarra tilmæla frá stofnuninni eru:

  • Grillmatur þarf að ná að minnsta kosti 75°C til að sjúkdómsvaldar á borð við salmonella drepist. Meiri líkur eru á örverum innst inni í hökkuðum vörum á borð við hamborgara.
  • Grillmatur þarf að vera kaldur áður en hann er grillaður til að minnka líkur á örverumyndun. Á ferðalögum þarf að passa upp á að kæliboxið sé nógu kalt.
  • Teflon á ekki að nota við grillið, hvorki sem grillgrindur eða áhöld, því efnið bráðnar við hitastig sem er ekki óvanalegt þegar grillað er.
  • Ef notað er kolagrill þarf að bíða eftir því að grillvökvi sé fullbrunnin og kolin orðin vel heit áður en hafist er handa við að grilla.
  • Þrífa þarf grillið reglulega. Góð regla er að taka grillið í gegn á vorin og þrífa sýnilega fitu að lokinni grillun.
Stikkorð: Grill  • Matvælastofnun