*

Bílar 2. júlí 2013

Mazda 3 með SkyActiv tækninni

Ný Mazda er með tæknilegri bílum framleiðandans. Hægt er að tengja bílinn við snjallsíma.

Róbert Róbertsson

Ný kynslóð af Mazda 3 kemur brátt fram á sjónarsviðið. Bíllinn verður með hinni háþróuðu SkyActiv-tækni eins og Mazda 6 og CX-5. Hinar nýju Skyactive-vélar þykja vel heppnaðar og eyðslugrannar.

Mazda 3 verður með aflmiklum vélum og þess verður hann boðinn með 2ja lítra bensínvélum, 120 og 165 hestafla. Ennfremur verður kynnt ný 1,5 lítra bensínvél sem skilar 100 hestöflum. Auk þess verður bíllinn í boði með 2,2 lítra dísilvél, þeirri sömu og er að finna í Mazda 6 en dísilvélin skilar 150 hestöflum.

Allar vélarnar verða boðnar með sex gíra beinskiptingu en gerðirnar með 120 hestafla bensínvélinni og dísilvélinni verða einnig fáanlegar með sjálfskiptingu. Í bílnum er m.a. að finna sjö tommu skjá sem sýnir ýmsar aðgerðir m.a. fyrir snjallsíma og aksturstölvuna. Mazda 3 verður um 60 kg léttari en forverinn og um leið hefur hljóðeinangrunin verið bætt sem gerir Mazda 3 að einum hljóðlátasta bílnum í sínum stærðarflokki. 

Stikkorð: Mazda  • Mazda 3