*

Sport & peningar 10. júní 2021

McGregor og Poirier í úrslitabardaga

Þetta er í þriðja sinn sem kapparnir mætast en hvor um sig hefur unnið einn bardaga. Bardaginn verður sýndur á Viaplay 10. júlí næstkomandi.

Einn mesti rígur í UFC heiminum verður útkljáður 10. júlí þegar Conor McGregor og Dustin Poirier mætast í þriðja sinn, nú í úrslitabardaga, sem verður eingöngu sýndur í beinni á Viaplay PPV. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Fyrstu viðureign þeirra árið 2014 lauk með sannfærandi sigri McGregors í fyrstu lotu. Þegar þeir mættust aftur fyrr á þessu ári sneri Poirier taflinu sér í vil með því að leggja írsku stórstjörnuna í annarri lotu.

Nú verður það útkljáð í eitt skipti fyrir öll hvor þeirra sé betri bardagakappi, á UFC 264 í Las Vegas. Það er mikið í húfi, ekki aðeins orðstír kappanna tveggja. „Ekki síst fyrir Conor. Hann þarf að sigra til að halda sínum sessi sem ofurstjarna íþróttarinnar," segir Magnus Cedenblad, MMA-sérfræðingur hjá NENT Group, í tilkynningu. 

Þökk sé blöndu af persónutöfrum og grjóthörðum hnefum hefur McGregor verið ein skærasta stjarnan í UFC undanfarin ár.
Fyrr á þessu ári var hann útnefndur tekjuhæsti íþróttamaður heims í öllum flokkum af Forbes, en hann vann sér inn u.þ.b. 22 milljarða íslenskra króna frá maí 2020 til maí 2021. Stærsti hluti teknanna kemur til vegna sölu á viskívörumerki sem var í meirihlutaeigu hans.

En spurningin er hvort Conor McGregor sé orðinn betri viðskiptamaður en bardagakappi? Hann hefur aðeins unnið einn bardaga síðan 2016. „Conor lifir í vellystingum og peningar breyta fólki. En kannski hefur síðasti ósigur kallað gamla Conor fram á nýjan leik? Tækifærið til að ná fram hefndum gæti verið neistinn sem hann þarf," segir Cedenblad.

Til að eiga möguleika á að vinna þriðju viðureignina þarf McGregor að leggja bardagann rétt upp. „Hann þarf fyrst og fremst að finna leið til að verjast lágspörkum Poiriers sem gerðu útslagið í síðustu viðureign þeirra. Það verður mjög spennandi að sjá hvor þeirra hefur unnið heimavinnuna sína betur í þetta skiptið," segir Cedenblad enn fremur.

Stikkorð: McGregor