*

Sport & peningar 12. maí 2021

McGregor tekjuhæsti íþróttamaðurinn

Írinn Conor McGregor seldi um 150 milljóna dala hlut í viskífyrirtækinu sínu fyrr í ár.

Írski bardagakappinn Conor Mcgregor er tekjuhæsti íþróttamaður í heimi með 180 milljónir dala í tekjur á síðustu tólf mánuðum, samkvæmt lista Forbes sem er gefinn út árlega. Þetta er í annað skipti sem McGregor kemst á listann en hann var númer fjögur á listanum árið 2018 vegna boxbardaga hans við Floyd Mayweather. 

Helsta ástæðan fyrir því að Írinn trónir á toppnum í ár er að hann seldi nýlega ráðandi hlut í vískifyrirtækinu sínu, Proper No. Twelve, fyrir rúmlega 150 milljónir dala. Hann þénaði einnig 22 milljónir dala fyrir UFC bardaga í janúar sem hann tapaði gegn Dustin Poirier. Þeir mætast aftur í Las Vegas þann 10. júlí næstkomandi. 

Tíu tekjuhæstu íþróttamenn heims þénuðu samtals 1,05 milljarða dala á tólf mánaða tímabilinu sem lauk þann 1. maí síðastliðinn, um 28% meira en efstu tíu á listanum í fyrra. 

Í öðru sæti listans er argentínski knattspyrnumaðurinn Lionel Messi með 130 milljóna dala í tekjur, þar af 97 milljónir fyrir störf hans í knattspyrnunni. Crisiano Ronaldo fylgir honum á eftir í þriðja sæti listans og Neymar er í því sjötta. 

Tveir körfuboltamenn komast á listann í ár en það eru þeir Lebron James sem er í fimmta sæti ásamt Kevin Durant í tíunda sætinu. Svissneski tennisleikarinn Rodger Federer er í sjöunda sæti listans með 90 milljónir dala en athygli vekur að nær allar tekjurnar hans koma frá styrktarsamningum, þar á meðal við Rolex, Credit Suisse og Uniqlo. 

Að neðan má sjá listann sjálfan og tekjur þeirra í milljónum dala í sviga: 

  1. Conor Mcgregor (180)
  2. Lionel Messi (130)
  3. Cristiano Ronaldo (120)
  4. Dak Prescott (107,5)
  5. Lebron James (96,5)
  6. Neymar (95)
  7. Rodger Federer (90)
  8. Lewis Hamilton (82)
  9. Tom Brady (76)
  10. Kevin Durant (75)

McGregor deildi eftirfarandi frétt frá fréttaveitunni The Mac Life, sem hann á sjálfur, í kjölfar sölunnar á viskífyrirtækinu.