*

Sport & peningar 12. október 2012

McLaren græðir á svindlinu

Formúluliðið McLaren fær að draga frá skattgreiðslum sekt sem lögð var á liðið fyrir að svindla í keppninni.

Formúlu 1 liðið McLaren var árið 2007 sektað um 32 milljónir punda þegar í ljós kom að liðið hafði aflað sér mikilvægra upplýsinga frá Ferrari liðinu og þar með brotið reglur alþjóðlegu bílaíþróttasamtakanna. McLaren greip þá til þess ráðs að draga sektina frá hagnaði fyrirtækisins þegar kom að því að greiða skatta. Bresk skattayfirvöld voru ósammála þessari túlkun liðsins og sögðu að aðeins mætti draga frá hagnaði kostnað sem til fellur við eðlilegan rekstur fyrirtækis. Sektargreiðslur gætu ekki fallið undir þessa skilgreiningu.

Skattadómstóll tók hins vegar afstöðu með McLaren með þeim rökum að ekki væri um eiginlega sektargreiðslu að ræða. Ekkert stjórnvald hefði sektað liðið, heldur hafi greiðslan átt upptök sín í einkaréttarlegum samningi tveggja aðila. Því mætti líta á greiðsluna sem eðlilegan þátt í rekstri liðsins og því megi draga hana frá hagnaði þegar kemur að skattgreiðslum. Taka ber fram að dómstóllinn klofnaði í afstöðu sinni og líklegt þykir að niðurstöðunni verði áfrýjað.

Stikkorð: Formúla 1  • McLaren