*

Bílar 13. mars 2013

McLaren P1 ofursportbíllinn kostar skildinginn

Þeir sem vilja tryggja sér nýjasta bílinn frá McLaren þurfa að punga út 165 milljónum króna - og hugsanlega meira.

Róbert Róbertsson

Breski sportbílaframleiðandinn McLaren kynnti nýjasta afkvæmi sitt, P1 ofursportbílinn á bílasýningunni í Genf og eins og búast mátti við fékk hann mikla athygli sýningargesta. 

McLaren er með tvinnaflrás með annars vegar 3,8 lítra V8-vél sem skilar 737 hestöflum og  720 Nm í togi, og hins vegar 179 hesta rafmagnsmótor sem skilar 260 Nm í togi. Heildaraflið er því 916 hestöfl og togið er 900 Nm. P1 er aðeins 3 sekúndur úr kyrrstöðu og í hundraðið og um 17 sekúndur í 300 km hraða, en hámarkshraðinn verður takmarkaður með rafeindastýringum við 350 km/klst. McLaren P1 er mjög straumlínulaga og ætti að haldast límdur við götuna á mikilli ferð því loftmótstöðugildi hans er aðeins 0,34.

Undirvagninn er smíðaður úr koltrefjum og er aðeins 100 kíló að þyngd. P1 er 10 sm lengri en hinn frægi McLaren F1 sportbíll og ögn lengri og breiðari en formúlubíll. Heildarþyngd bílsins er aðeins 1.400 kíló en hann mun koma með nýrri gerð diskabremsa úr koltrefjagleri. Diskarnir eiga að vera sterkari og losa frá sér hita betur en eldri gerðir.

P1 bíllinn verður smíðaður í aðeins 375 eintökum. Það er ljóst að það þarf að eiga svolítinn aur til að geta fjárfest í þessum ofursportbíl því grunnverð hans verður um 165 milljónir króna.

  

Stikkorð: McLaren