*

Sport & peningar 24. febrúar 2018

Með 1,1 milljarð í laun

Háskólaþjálfari í Alabama er með sextánföld laun bankastjóra Arion banka.

Trausti Hafliðason

Nick Saban, sem stýrir liði Alabama háskólans í Tuscaloosa í ameríska háskólafótboltanum, er einn allra launahæsti þjálfari heims. Í fyrra var Saban með ríflega 1,1 milljarð króna í árslaun, sem þýðir að hann er með hærri laun en bæði Jürgen Klopp hjá Liverpool og Antonio Conte hjá Chelsea.

Einu þjálfararnir í ensku úrvalsdeildinni, sem slá Saban við, eru Arsene Wenger, hjá Arsenal, José Mourinho hjá Manchester United og Pep Guardiola hjá Manchester City. Wenger er með um 1,2 milljarða í árslaun en Manchester-þjálfararnir eru með rétt ríflega 2 milljarða króna hvor.

Launin í íslensku samhengi

Þess má geta að enginn þjálfari í NFL-deildinni er með hærri laun en Saban. Sá sem kemur næst honum er Jon Gruden, sem nýlega var ráðinn til Oakland Raiders en áætlað er að hann sé með 10 milljónir dollara í árslaun eða um einn milljarð króna. Bill Belichick, þjálfari New England Patriots og fimmfaldur Super-Bowl meistari, er með 7,5 milljónir dollara í árslaun eða um 750 milljónir króna.

Til gamans má geta þess að Nick Saban er með fimm sinnum hærri laun en Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, er einn launahæsti ef ekki launahæsti íslenski forstjórinn. Jón er með ríflega 200 milljónir króna í árslaun. Af bankastjórum stóru bankanna þriggja er Höskuldur Ólafsson, hjá Arion banka, með hæstu launin eða um 71 milljón króna á ári. Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, sem er stærsta fyrirtækið í íslensku kauphöllinni, er með svipuð laun og Höskuldur. Saban er því með sextánföld laun Höskuldar og Árna Odds.

Sá lægst launaði er með 38 milljónir

Listi, sem bandaríska dagblaðið USA Today birti fyrir áramót, sýnir að laun þjálfara í ameríska háskólafótboltanum eru gríðarlega há. Á listanum eru laun 121 þjálfara. Sá sem er með lægstu launin er Doug Martin hjá New Mexico State-háskólanum en hann er með 38 milljónir í árslaun eða ríflega 3 milljónir á mánuði. Þjálfararnir, sem eru í tuttugu efstu sætunum, eru með frá 400 milljónum í árslaun upp í 1,1 milljarð. Saban er reyndar eini þjálfarinn, sem rýfur milljarðs-króna-múrinn.

Fyrirkomulag bandarískra háskólaíþrótta hefur oft verið gagnrýnt og þá sérstaklega sú staðreynd að leikmenn fá ekkert greitt heldur fá þeir styrki til að stunda nám. Bandarískar háskólaíþróttir, og þá sérstaklega körfuboltinn og ameríski fótboltinn, velta miklum fjármunum. Skólarnir spila í mismunandi deildum og oft gerir hver deild fyrir sig sérstakan sjónvarpssamning við eina af stóru bandarísku stöðvunum. Þar fyrir utan hafa skólarnir miklar tekjur af miðasölu.

Heildartekjur Alabama háskólans vegna íþrótta námu 164 milljónum dollara árið 2016 eða um 16,4 milljörðum króna miðað við gengi krónunnar gagnvart dollar í dag. Þrátt fyrir þessar miklu tekjur voru þrír aðrir skólar með hærri tekjur. Texas A&M háskólinn í borginni College Station var með 194 milljóna dollara tekjur, University of Texas í Austin 188 milljóna tekjur og Ohio State University í Columbus var með 171 milljón dollara í tekjur.

Ríflega 100 þúsund manna vellir

Það vita það ef til vill ekki allir en stærstu vellirnir í Bandaríkjunum eru háskólavellir. Sá völlur sem rúmar flesta áhorfendur er heimavöllur Michigan háskólans, en hann tekur tæplega 108 þúsund manns. Átta háskólavellir rúma fleiri en 100 þúsund áhorfendur. Til samanburðar tekur stærsti NFL-völlurinn 82.500 manns í sæti en það er MetLife-völlurinn í New Jersey, sem er heimavöllur New York Giants og New York Jets. Alls sextán háskólavellir rúma fleiri áhorfendur en MetLife-völlurinn. Bryant-Denny völlurinn í Tuscaloosa, sem er heimavöllur Alabama-háskólans, tekur rétt tæplega 102 þúsund áhorfendur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.