*

Sport & peningar 27. júlí 2012

Með auðlegðarskatti hefði ríkið ráð á opnunarhátíð ÓL

Kostnaður við opnunarhátíð Ólympíuleikanna í kvöld nemur 5,2 milljörðum króna. Dýrustu miðarnir kosta 390 þúsund krónur.

Dýrustu miðarnir á opnunarhátíð Ólympíuleikanna í kvöld kosta 2.012 pund. Það er jafngildir tæplega 390 þúsund íslenskum krónum. Í hádeginu í dag voru enn lausir miðar í þessu dýrustu sæti og einnig í næstdýrustu sætin sem kosta um 308 þúsund íslenskar krónur. Þetta kemur fram í dagblaðinu Belfast Telegraph í dag.

Sætin verða þó ekki auð og hafa forsvarsmenn hátíðarinnar gefið til kynna að miðunum verði dreift til heppinna ungra Breta og starfsmanna úr gæsluliði Ólympíuleikanna sem ekki þurfa að vinna á opnunarhátíðinni. Jafnframt hefur verið ítrekað að miðarnir verði ekki seldir á lækkuðu verði þó ekki náist að selja það sem eftir stendur. Spenntir Íslendingar þurfa þó ekki að örvænta þar sem sýnt verður frá hátíðinni á RÚV í kvöld. 

Hátíðin fer fram á Stratford leikvanginum. Þar komast 80.000 manns í sæti. Mikil leynd hvílir yfir dagskrá opnunarhátíðarinnar sem áhugamenn um Ólympíuleikana bíða að vanda spenntir eftir. Sérstaklega hlakka margir til að sjá hver verður þess heiðurs aðnjótandi að fá að bera Ólympíulogann síðustu metrana og kveikja sjálfan eldinn. 

Leikstjórinn Danny Boyle stýrir hátíðinni. Hann er einn sjö leikstjóra sem unnið hafa bæði Golden Globe og Óskarsverðlaun fyrir sömu bíómyndina. Verðlaunin hlaut hann fyrir bíómyndina Slumdog Millionaire. Hann er sagður leggja gífurlegan metnað í skipulagninguna sem endurspeglast ekki síst í kostnaðaráætluninni.

Samkvæmt Belfast Telegraph kostar opnunarhátíðin litlar 27 milljónir punda. Það jafngildir 5,2 milljörðum íslenskra króna. Í ljósi fréttaflutnings síðustu daga er þess gaman að geta að það er nánast jafn mikið og þeir 5,6 milljarðar króna sem íslenska ríkið innheimtir með álagningu auðlegðarskatts.