*

Bílar 31. ágúst 2019

Með brjálaða bíladellu

Óskar Pétur Sævarsson er með farartækjadellu á hæsta stigi. Hann er bæði flugmaður og prófar alla þá bíla sem hann kemst í.

Róbert Róbertsson

Óskar Pétur Sævarsson er fæddur og uppalinn í Keflavík. Hann er með farartækjadellu á hæsta stigi enda starfar hann sem flugmaður og prófar alla þá bíla sem hann kemst í. Ásamt fluginu skrifar hann um bíla á vefmiðla og fjallar um þá sem Óskar Bílakall á Instagram. 

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

,,Þarna koma nokkrir til greina. Fyrst ber að nefna kóngabláan Cadillac Brougham árgerð 1991 sem ég átti á meðan ég stundaði nám í Flórída. Sex sæta fleki sem ég keypti af níutíu ára lítilli konu frá Chicago sem var hætt að keyra. Drakk eldsneyti eins og það væri frítt en hentaði mjög vel í að koma sex fátækum flugnemum á milli flugvallarins og veitingastaða.  Næst er það Renault Clio RS sem ég leigði ásamt litla bróður til að fara nokkra hringi á hinni heimsfrægu Nürburgring braut. Æðisleg græja sem var frábært að prófa á fullri ferð í sólsetrinu, í himnaríki þeirra sem elska að keyra.  Þriðji væri án efa fyrsti bíllinn minn. 1988 árgerð af Toyota Corolla GTi sem ég keypti fyrir fyrsta launaseðilinn minn sumarið áður en ég varð 17 ára. Eyddi svo fyrri hluta vetrarins að skera úr ryð og bólur til að láta mála hann aftur. Þessi bíll þjónustaði svo ævintýraþrána sem bjó í brjóstinu um að rúnta um bæinn öll kvöld og láta eins og maður væri karakter í myndinni American Graffiti.  Síðan verð ég að nefna 2003 BMW fimm seríu sem ég átti í miðri heimskreppunni árið 2009. Fjórðungur af laununum mínum, sem voru ekki há vegna efnahagsástandsins, fóru í reksturinn á þeim bíl. Hann var átta sílindera, svartur með svörtu leðri og ég sá ekki eftir einni einustu krónu sem fór í hann. Hann hjálpaði mikið við að gera árin eftir hrun bærileg. Jafnvel þó að rúnturinn væri bara niður á þvottaplan að bóna því ég hafði ekki efni á að aka um.” 

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

,,Ég fór með konunni minni til San Fransisco í „sumarfrí“ í nóvember 2016 og eftir að við trúlofðum okkur á bekk í almenningsgarðinum hjá brúnni frægu ókum við örlítið um Kaliforníu ríki. Hófum ferðina í San Fransisco og ókum þaðan til Yosemiteþjóðgarðarins. Þaðan lá svo leiðin aftur til strandarinnar með viðkomu í Napa-dalnum. Síðan ókum við þjóðveg númer 1, hinn svokallaða Pacific Coast Highway, niður ströndina alla leið til Los Angeles. Frábær ferð í alla staði. Mæli með þessari leið og ég mun fara aftur, en þá leigja mér blæjubíl og fara að sumri til.“

Hver er besti bílstjóri sem þú þekkir?

,,Það er án efa Ásgeir yngri bróðir minn, svo framarlega sem hann er ekki á öðru hundraðinu á Nurbürgring á bílaleigubíl þar sem kreditkortið mitt liggur inni fyrir tryggingunni.“

En versti bílstjórinn?

,,Það verður að vera Ásgeir aftur. Hann ók að öðru hundraðinu á bílaleigubíl á Nurbürgring þar sem kredit-kortið mitt lá frammi fyrir tryggingu. Annars þekki ég mjög fáa sem hanga á vinstri akreininni endalaust að tala í símann án handrjáls búnaðar.“

Hvað hlustarðu helst á í bílnum?

,,Ég elska að nýta bílferðirnar í að hlusta á hljóðbækur eða hlaðvörp.” 

Hvort myndirðu vilja keppa í kappakstri eða torfæru?

,,Kappakstur allan daginn. Elska að fara hratt yfrir þegar það er löglegt og leyfilegt, enda vinn ég á þotu.”

Hver er draumabíllinn?

,,Það liggur alveg ljóst fyrir að maður með jafn mikla bíladellu og ég get ekki bara átt einn draumabíl. Samþykktur listi af konunni sem fer með fjármál heimilisins eru fimm. Sá fyrsti er 1962 árgerð af Lincoln Continental, fjögurra dyra, svartur og með hvítu leðri en ekki með blæju. Númer tvö er líka stór fleki en frá Evrópu. Það er 1990 árgerð af Mercedes Benz 500SE. W126 bóddýið eins og bílanördarnir tala um. Látlaus og ódrepandi hönnun. Þriðji er 1973 árgerðin af Ford Mustang Sportsroof, hin upprunalega Elenor. Hún mætti hins vegar verða í öðrum lit en þessum gula úr myndinni. Sá fjórði er sá sem ég á mestan möguleika á að eignast en það er E39 BMW M5. Bíll sem ég hef aðeins einu sinni á ævinni ekið og leið sú bílferð alltof hratt eins og sagt er. Sá fimmti og síðasti er Honda S2000. Gulan með rauðu leðri og algjörlega upprunalegan.“