*

Bílar 2. febrúar 2020

Með bullandi bíladellu

Kristinn Ásgeir Gylfason lögfræðingur hefur haft bullandi bíladellu frá því að hann var barn að eigin sögn.

Róbert Róbertsson

Bíladellan hefur örugglega eitthvað með það að gera að það var mikið um bíla og bílaáhugafólk í kringum mig þegar ég var að alast upp. Ég fór á torfærukeppnir, jeppaferðir og fékk að fylgjast með þegar var verið að gera við bíla eða breyta þeim og bæta. Ég setti upp eigin heimasíðu þar sem ég birti bílaumfjallanir, eitt leiddi svo af öðru og í dag skrifa ég um bíla fyrir Vísi. Ég starfa samhliða því sem lögfræðingur hjá SidekickHealth, það er eiginlega eins langt frá bílabransanum og komist verður. SidekickHealth smíðar smáforrit sem er ætlað að hjálpa fólki til að bæta lífsgæði þess, hvort sem það er með lífsstílssjúkdóm eða vill hætta að reykja. Það er ýmislegt afar áhugavert í þróun þar,“ segir Kristinn.

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?
,,Klárlega Toyota GT86. Vegna þess hvað hann er einfaldur og langt frá því sem við eigum að venjast í nýjum bílum í dag sem eru hálf sjálfkeyrandi eða með akreinavara og jafnvel hemlunaraðstoð. Þetta eru allt frábær öryggisatriði. Það er bara eitthvað svo frábært að taka aðeins á bíl sem er einfaldur, hrár, afturhjóladrifinn og sá sem ég ók var beinskiptur. Ég get hreinlega ekki beðið eftir að prófa nýju útgáfuna, GR86 og svo nýja Supra.“

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?
„Það er sennilega þegar við hjónin fórum í helgarferð til Dublin, verandi bílaáhugamaður sá ég þetta sem kjörið tækifæri til að prófa að keyra vinstra megin á veginum. Það var einhvern veginn ekki hægt að sleppa því. Aksturinn á Írlandi leiddi af sér allskonar skemmtilegar minningar. En það fór allt vel þótt legið hefði við hjónaskilnaði áður en við komumst út af flugvallarsvæðinu. Þetta var áhugaverð lífsreynsla.“

Hver er besti bílstjóri sem þú þekkir (fyrir utan sjálfan þig)?
„Einu sinni sat ég í með Kristjáni Einari Kristjánssyni á lokaðri braut í þokkalegum sportbíl, hann kann að keyra. Það var mjög gaman að sjá fagmann að verki. Maður hélt að maður væri mjög góður, nú veit ég að ég er bara góður.“ 

En versti bílstjórinn?
„Mágkona mín, hún er ein af þeim sem fer hægt og sér fátt. Annars er mamma skæð undir stýri, hún hefur ekki alveg alltaf sens fyrir því hvert hún er að fara og hvernig er best að komast þangað, þannig að hún fer stundum bara eitthvað. Kristján Einar Kristjánsson er þó versti farþegi sem ég hef haft, svo því sé haldið til haga. Hann upplifir sig ekki öruggan með hvern sem er undir stýri.“

Hvað hlustarðu helst á í bílnum?
„Hlaðvörp, þá helst Hismið, Í ljósi sögunnar eða Tvíhöfða. Það stundum liggur við að ég fari út að keyra til þess eins að hlusta á Hismið. Tónlistarlega þá reyni ég að hlusta helst eingöngu á útvarpsstöðvar sem byrja á R.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.