*

Bílar 4. febrúar 2017

Með ólæknandi bíladellu

Guðbjartur Guðmundsson er mikill bílaáhugamaður og á MG sportbíll sem lúkkar eins og gamall rallíbíll.

Róbert Róbertsson

„Ég er með ólæknandi sjúkdóm sem kallast bíladella. Þessi sjúkdómur er á háu stigi hjá mér og það væri líklega hægt að leggja mig inn. Ég hef átt marga bíla og vonandi fer þeim fjölgandi,“ segir Bjartur, eins og hann er alltaf kallaður, og brosir breitt. Hann tekur yfirbreiðsluna af fallegum, bláum MG sportbíl sem lúkkar eins og gamall rallíbíll. Breski fáninn er á þakinu enda enskur sportari og númerið 71 er á hlið bílsins.

„Þetta er 1971 árgerð af þessum fallega og skemmtilega sportbíl," segir hann. „Ég hef alltaf verið mikill MG aðdáandi og hef verið að gera upp tvo aðra MG bíla ásamt mági mínum honum Einari Júlíussyni. Þennan bíl eignaðist ég árið 2013.

Eigandinn hafði átt hann í 25 ár en bíllinn stóð alltaf óhreyfður inni í bílskúr. Þegar maðurinn féll frá árið 2013 hafði ekkjan samband við mig því hún frétti af því að ég væri að gera upp MG bíla og bauð mér bílinn í varahluti. Ég horfði á bílinn og féll eiginlega alveg fyrir honum. Ég hugsaði með mér að þetta væri of flottur bíll til að rífa og nota i varahluti. Þannig að ég keypti hann en tímdi ekki að rífa hann og ákvað að gera hann aðeins upp. Ég skipti um bensíndælu, bensínlagnir, olíur og rafgeymi.

Ég er búinn að keyra hann allmikið á sumrin og m.a. búinn að fara þrisvar á honum hringinn í kringum landið. Þetta er hörkubíll og stendur sig vel. Hann er með 1,8 lítra, 4 sílindra vél sem skilar 101 hestafli. Mér þykir orðið mjög vænt um þennan bíl. Líklega er hann í sérstöku uppáhaldi hjá mér af öllum mínum bílum."

Bjartur segir að það sé hrikalega skemmtilegt að keyra MG sportbíl.

„Maður situr lágt og nánast alveg við jörðina. Maður fær svo mikla tilfinningu fyrir akstrinum. Þessi bíll er með sál,“ segir hann og strýkur yfir húddið á bílnum. Bíllinn er með númerið U248 sem er að austan og Bjartur útskýrir að númerið komi frá stjúpföður hans og honum þyki mjög vænt um þetta númer.

„Ég setti breska fánann á þakið og númerið 71 á bílinn til að gera hann aðeins rallílegri. Auk þess setti ég körfustóla í hann sem gerir hann sportlegri."

Viðtalið í heild má lesa í fylgiriti Viðskiptablaðsins sem nefnist Bílar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: sportbílar  • Guðbjartur Guðmundsson  • MG