*

Bílar 13. ágúst 2017

Með ólæknandi bíladellu

Pálmi Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarps Símans, er með ólæknandi bíladellu eins og hann segir sjálfur.

Róbert Róbertsson

Pálmi Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarps Símans, er með ólæknandi bíladellu eins og hann segir sjálfur. Hann á m.a. gullfallegan MercedesBenz E-Class W123 árgerð 1982 sem hann ekur á flesta daga og vekur athygli á götunum. Pálmi segir okkur frá uppáhaldsbílunum sínum og eftirminnilegustu bílferðinni ásamt ýmsu öðru.

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

,,Þeir eru þrír talsins og engin leið að gera upp á milli þeirra. Grjótharður G-Class Benz, Porsche 911 og Mercedes Gullwing. Á vondri íslensku eru þýskir pre classic bílar mitt algjört uppáhald, langt umfram bíla beint úr kassanum. Bílar framleiddir frá seinni hluta áttunda áratugarins og til nútímans. Ég er ekki neitt of hrifinn af bílum með flókna tækni og skynjara sem elska að bíla með tilheyrandi kostnaði. Fyrir mann með ólæknandi bíladellu eins og mig þá eru þessi þrjú ökutæki algjörlega framúrskarandi. Sjálfkeyrandi bílar mega eiga sig mín vegna.“

Hver er eftirminnanlegasta bílferðin?

,,Sjö ára gamall sat ég í Ford Escort rallýbíl með veltigrind og tveimur frændum mínum sem voru ábyrgir fyrir tímatöku í kappakstri. Við þurftum að færa okkur með engum fyrirvara á næsta stað og meðalhraðinn á malarveginum var 180 km á klukkustund. Þetta var alveg ógleymanlegt. Ég fór líka reglulega sem ungur drengur með afa mínum frá Hvolsvelli um helgar í bíltúr á leðurklæddum Volvo en hann sannfærði mig um að hazard-ljósin á honum væru forgangsljós eins og í löggubíl. Þá fórum við þrír æskuvinir aðeins 18 ára gamlir að keyra um Evr­ópu. Sú ferð gleymist seint. Þá var Google-maps alveg klárlega ekki í boði og við áttum litríkar samræður við stóra landakortið örlítið komnir af leið. Loks voru ég og nokkrir íslenskir námsmenn í Phoenix í Arizona, þar sem ég bjó í nokkur ár, fengnir til að keyra Ford Mustang blæjubíla á Route 66 gegn greiðslu fyrir ónefnt amerískt fyrirtæki. Ég hefði glaður borgað með mér í þann akstur. Þar fór saman falleg náttúra og fullt af hestöflum undir berum himni á sólríkum degi.“

Hver er besti bílstjóri sem þú þekkir (fyrir utan sjálfa þig)? 

„Ég held að ég sjálfur sé besti bílstjóri landsins og jafnframt lé­legasti farþeginn. Er týpan sem vill vera við stýrið.“

En versti bílstjórinn?

,,Æskuvinur minn keyrði á margra tonna appelsínugulan strætisvagn sem var að hleypa út farþegum í mínum uppeldishverfi, Árbænum. Veit ekki enn þann dag í dag hvað það var sem hann sá ekki því gatan var greið, ökuhraðinn hægur og skyggni til fyrirmyndar þann daginn.“

Nánar er rætt við Pálma í blaði Viðskiptablaðsins, Bílar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.