*

Tölvur & tækni 20. mars 2018

Meðgöngu appið bar sigur úr býtum

Ofurhetjudagar Origo fóru fram á dögunum þar sem snjallforrit sem á að nýtast á meðgöngu var valin besta hugmyndin.

Meðgöngu app hreppti flest verðlaun á Ofurhetjudögum Origo, nýsköpunarkeppni hugbúnaðarsviðs fyrirtækisins. Meðgöngu appið var valin besta hugmyndin og besta viðbótin. Þá var loftgæðamælir valið frumlegasta verkefnið. Framkvæmdastjóri hugbúnaðarlausna fyrirtækisins segir að Ofurhetjudagar séu leið til að hvetja til nýsköpunar, gera nýja hluti og auðvitað hafa gaman í vinnunni.

,,Nýsköpun er lykilatriði í okkar starfsemi og því skiptir máli fyrir starfsfólk okkar að hafa vettvang til þess að koma eigin hugmyndum og nýjum lausnum á framfæri. Þess vegna gegna Ofurhetjudagar afar mikilvægu hlutverki en þar fær starfsfólk tækifæri til að láta hugmyndaflugið ráða för og oftast verður til grunnur að spennandi lausnum fyrir viðskiptavini og fyrirtækið," segir Hákon Sigurhansson framkvæmdastjóri Hugbúnaðarlausna Origo.

Meðgöngu appið, sem bar sigur úr býtum, inniheldur bæði fræðsluefni um meðgöngu auk þess sem gert er ráð fyrir að það innihaldi heilbrigðisupplýsingar úr meðgönguvernd móðurinnar. Loftgæðamælir, sem var valið frumlegasta verkefnið, mælir hitastig, hljóð og koldíoxíðsmagn í andrúmslofti í vinnurýminu og gæti nýst starfsmönnum til að velja sér sæti þar sem hitastigið er þeim að skapi og stýrt gluggum og loftræstingu.

Hákon segir að um Ofurhetjudagar sé frábær vettvangur til þess að halda nýsköpunarandanum á lofti og hugsa út fyrir kassann enda ekki alltaf tækifæri til þess í dagsins önn. ,,Sem dæmi má nefna að í fyrra vann Translatornator-lausn, sem er nú grunnur að nýrri þjónustu sem er í þróun og heitir nú Tour Guide Translator. Þannig hafa margar lausnir, sem hafa fæðst á Ofurhetjudögum í gegnum tíðina, hlotið framhaldslíf og jafnvel orðið að fullbúinni vöru."