*

Bílar 18. maí 2019

Meira afl minna bensín

„Með þessari nýju útlitshönnun kveður RAV4 fortíðina og sækir inn í framtíðina.“

Guðjón Guðmundsson

Nokkrar tengingar sem koma upp í hugann þegar Toyota er nefnt á nafn er tvinnbílar, áreiðanleiki, fyrirtaks þjónusta, massasala, smíðagæði en oftast í gegnum tíðina fremur óspennandi hönnun.

Fyrstur framleiðanda kynnti fyrirtækið fjöldaframleiddan tvinnbíl til sögunnar árið 1997 þegar Prius kom á markað og önnur eins sala og á Corolla í gegnum tíðina er óþekkt meðal annarra framleiðenda. Corollan stakk meira að segja gömlu VW Bjölluna af og hefur nú selst í tæplega 50 milljónum eintaka. Yrði hverjum þessara bíla lagt fyrir aftan hvern annan næði röðin fimm hringi í kringum jörðina.

Merkið hefur kannski mest höfðað til hins ábyrga millistéttarmanns sem sækist fyrst og fremst eftir gæðum, áreiðanleika og góðri þjónustu og endursöluvirði en er kannski dálítið ástríðulaus að öðru leyti gagnvart bílum. Bílkaupendur af þessu tagi eru auðvitað langflestir í öllum heiminum og Toyota hefur mokað út bílum í samræmi við það.

Fyrirtækið var stofnað af Kichiro Toyoda árið 1937. Það er annar stærsti bílaframleiðandi heims og hefur framleitt á þessum tíma á þriðja hundruð milljónir bíla. Til að halda öllum góðum hefur Toyota jafnan framleitt nokkurs konar jaðarbíla sem höfða til þeirra sem vilja aðeins meiri spenning í lífið. Nægir þar að nefna Toyota Sports 800, hina vellukkuðu Celica sem framleidd var á árunum 1970-2006, Toyota MR2 (1984-2007) og núna GT86 sem kom á götuna fyrst árið 2012.

Ferskir vindar

En nú er öldin önnur. Þegar litið var inn í höfuðstöðvar Toyota í Kauptúni í Garðabæ á dögunum blasti þar við floti nýrra Corolla. Corolla hefur verið framleidd sleitulaust frá árinu 1966 en það er ekki fyrr en nú með tólftu kynslóðinni sem bíllinn hreyfir fyrst við fegurðarskyni undirritaðs. Það má segja að það blási nýir og ferskir vindar hjá Toyota. Í salnum var líka nýr RAV4 jepplingur. Corolla og RAV4 ásamt litla jepplingnum C-HR eru til marks um nýja hönnunarstefnu Toyota sem átti talsvert verkefni fyrir höndum á þessu sviði miðað við helstu keppinauta.

RAV4 er ekki síður en Corolla sögulegur bíll. Hann kom fyrst á markað 1994 í Evrópu og ruddi brautina fyrir þá gerð bíla sem síðar áttu eftir að verða heit söluvara um allan heim, jepplinginn. Nú er hann kominn í fimmtu kynslóð og nær óþekkjanlegur frá forverunum. Það sést á öllum málum að um ólíka teikningu er að ræða. Ekki er algengt að bílar styttist milli kynslóða en það gerir RAV4 þó ekki sé nema um 66 mm en hann er líka 10 mm breiðari og hjólhafið er 30 mm meira sem skilar sér í meira fótarými fyrir farþega í aftursætum.

Tvær aflrásir

Útlit bílsins einkennist af skörpum línum, hann er lægri og breiðari og hönnunin minnir um margt á NX-línuna frá Lexus þó ekki sé jafnlangt gengið í formum, einkum að framan. Með þessari nýju útlitshönnun kveður RAV4 fortíðina og sækir inn í framtíðina með kraftalegri formlínum og dálítið fáguðum sem ættu að höfða til enn breiðari hóps bílkaupenda.

RAV4 er boðinn með tvenns konar aflrásum; annars vegar 2ja lítra bensínvél sem skilar 173 hestöflum sem fæst jafnt beinskiptur og sjálfskiptur með framhjóladrifi eða fjórhjóladrifi, og hins vegar 2,5 lítra bensínvél og rafmótor í hybrid-útfærslu, 222 hestafla. Sú útfærsla er eingöngu fáanleg með CVT sjálfskiptingu og fjórhjóladrifi. Auk þess er hann boðinn í LX, GX, VX og Style búnaðarútfærslum auk mýgrúts af aukabúnaði. Það er því úr mörgu að velja og verðbilið breitt.

Ég prófaði fyrst minni vélina með fjórhjóladrifi í VX útfærslu. Þetta er laglegur bíll á 18" fimm arma álfelgum, stæðilegur á vegi og sportlegur. Innanrýmið kom á óvart. Staðalbúnaður er leðurklædd sæti og mælaborð og flestallir fletir klæddir efni sem er mjúkt viðkomu. Það er „premium" tilfinning í innanrýminu og mikið stökk fram miðað við forverann. Hann er hlaðinn nýjasta búnaði, eins og akreinastýringu og sjálfvirkum hraðastilli, blindblettsvörum, bakkmyndavél og flestu því sem fylgir bílum í þessum verðflokki. Gott fótapláss er fyrir farþega í aftursætum. Í þessari útfærslu er verðmiðinn 6.850.000 kr.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Toyota  • RAV4