*

Veiði 30. maí 2013

Meira en 30% samdráttur í sölu á laxveiðileyfum

Veiðileyfasalar óttast algert hrun meðal erlendra veiðimanna

Ögurstund er runnin upp á stangaveiðimarkaðnum á Íslandi samkvæmt fréttatilkynningu frá Landssambandi stangaveiðifélaga. Samkvæmt nýrri markaðsúttekt sem unnin hefur verið fyrir LS kemur í ljós mikill samdráttur í sölu veiðileyfa. Samdráttur á besta tímanum er á bilinu 10 – 20% í stangafjölda en þar sem þetta er dýrasti tíminn þá eru fjárhagsleg áhrif enn meiri og lætur nærri að vera um 30% fall í sölu hjá flestum stærstu veiðileyfasölum á Íslandi.

Íslenskir stangaveiðimenn halda einnig að sér höndum og þar mælist samdrátturinn allt að 40% samanborið við sama tíma í fyrra, að því er kemur fram í tilkynningunni.

Veiðifélög og leigutakar sem rætt var við í tengslum við úttektina sögðu að aðstæður væru fordæmalausar. Kreppan sé núna fyrst að koma fram á þessum markaði og á sama tíma sé Evrópa í sárum. Ofan á þetta allt bættist mesta hrun sem orðið hefur í íslenskri laxveiði síðasta sumar.

Í tilkynningunni segir að veiðileyfi á Íslandi séu einfaldlega orðin of dýr í samanburði við hágæða laxveiðileyfi í heiminum. Stangaveiðifélag Reykjavíkur bendir á að veiðileyfi hafi á síðustu 15 – 20 árum hækkað 100% umfram vísitölu og hafi því tvöfaldast að raungildi.

Í tilkynningunni er tekið dæmi þróunina frá SVFR; Hjónaferð í Hítará árið 1998 á dýrasta tíma kostaði með öllu 120 þúsund krónur. Sama ár kostaði helgarferð fyrir hjón til London einnig 120 þúsund krónur. Nú kostar veiðiferðin í Hítará ríflega hálfa milljón á meðan að Londonferðin er á 180 þúsund krónur.