
Hann var tekinn til kostanna á dögunum í svonefndri Kinetic útfærslu og með sjálfskiptingu. Bíllinn er fáanlegur með þremur dísilvélum og einni bensínvél og til að aðgreina gerðirnar fá dísilbílarnir undirheitið D2, D3 og D4 og bensínútfærslan, sem eingöngu er fáanleg með fjórhjóladrifi, T4. Við prófuðum D2 sem er með 2ja lítra, 120 hestafla vél.
Hönnunarbylting
Volvo hefur farið í gegnum heila hönnunarbyltingu. Áður fyrr einkenndist hönnunin af þungri íhaldssemi og gráir og drapplitir tónar voru ríkjandi í innréttingum. Þessir tímar eru löngu liðnir og undir styrkri stjórn Thomas Ingenlath yfirhönnuðar hafa streymt fram nýjar gerðir og róttækir hugmyndabílar sem hafa verið viðraðir á bílasýningum.
Hönnunin einkennist nú af léttleika, einfaldleika og gæðum. Á síðustu árum hefur Volvo líka snúið taprekstri í hagnað enda opnuðust gríðarlegar sölurásir fyrir framleiðandann eftir að hann komst í eigu kínverska bílaframleiðandans Geely.
Volvo V40 Cross Country er dæmi um léttleikann í nýju hönnunarstefnunni en nýr S90, sem nú má berja augum í sýningarsal Brimborg, er hinn anginn í hönnunarstefnunni sem einkennist af fágun og lúxus.
4X4 á 6,5 milljónir
V40 Cross Country er ekki stór bíll. Hann keppir í flokki sem hefur verið kenndur við Golf, þ.e.a.s. C-stærðarflokkinn. Hann á sér þó engan beinan keppinaut því í þessari gerð sem hann var prófaður er hann framhjóladrifinn en bíllinn sem eðlilegast væri að bera hann saman við er fjórhjóladrifinn VW Golf Alltrack. V40 Cross Country er fáanlegur fjórhjóladrifinn en er þá farinn að slaga hátt í jeppaverð, þ.e. 6.490.000 krónur.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir Tölublöð.