*

Bílar 9. janúar 2012

Mercedes-Benz aftur söluhæsta lúxusbílamerkið

Sala lúxusbíla þrefaldaðist á milli ára í fyrra.

Mercedes-Benz er söluhæsta lúxusbílamerkið á Íslandi annað árið í röð en sala lúxusbíla tæplega þrefaldaðist á milli ára, samkvæmt upplýsingum Umferðarstofu. Heildarsala fólksbíla hefur aukist um 64% á milli ára.

Alls voru nýskráðir 94 Mercedes-Benz bílar í fyrra sem er tæplega þreföld aukning frá árinu 2010 þegar 34 nýir bílar seldust frá þýska lúxusbílaframleiðandanum hér á landi. Audi er í öðru yfir með 91 nýskráða lúxusbíla á árinu 2011, Porsche var með 28 nýskráða bíla á árinu, BMW 26 og Lexus 22 nýja bíla.

„Góður árangur Mercedes-Benz skýrist m.a. að eftirspurn eftir sparneytnum og umhverfisvænum bílum hefur aukist mjög og Mercedes-Benz býður mjög hagkvæmar útgáfur af bílum sínum m.a. GLK sportjeppann og B-Class fólksbílinn. Auk þess hefur metanknúni E-Class lúxusbíllinn mælst vel fyrir,“ segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri bílaumboðsins Öskju, sem er umboðsaðili Mercedes-Benz á Íslandi. Hann segir að spennandi tímar séu framundan hjá Mercedes-Benz.

,,Nú er að koma ný kynslóð af M-línunni sem setur ný viðmið í flokki jeppa fyrir litla eldsneytisnotkun og lítinn útblástur. Að meðaltali yfir alla línuna lækkar eldsneytisnotkunin um 28% miðað við fyrri gerðir. Þá er ný kynslóð B-Class fólksbílnum einnig væntanleg innan skamms en hann eyðir að meðaltali aðeins rúmum 4 lítrum á hundraðið sama hvort um er að ræða sjálfskipta eða beinskipta útfærslu,“ segir Jón Trausti.

Stikkorð: Mercedes Benz