*

Bílar 23. júní 2013

Mercedes Benz Alberts var einn dýrasti ráðherrabíllinn

Albert Guðmundsson lét iðnaðarráðuneytið kaupa Mercedes-Benz 300 SEL árið 1986.

Albert Guðmundsson var þingmaður Sjálfstæðisflokksins og iðnaðarráðherra í ríkistjórn Steingríms Hermannssonar árið 1986 þegar hann lét kaupa Mercedes-Benz 300 SEL.

Bíllinn er viðhafnarútgáfa, sérstaklega lengd útgáfa af flaggskipi þýska bílaframleiðandans. Bíllinn er án efa einn dýrasti ráðherrabíll sem keyptur hefur verið. Nýr kostaði hann 2,6 milljónir.

Ekki hefur verið gefið upp verðið á nýjasta S bílnum, en hann kostar vart undir 30 milljónum.

Albert sagði af sér ráðherraembætti vorið 1987 eftir að í ljós kom að hann hafði vantalið tekjur á skattframtali. Albert var óánægður með framgöngu Þorsteins Pálssonar, þáverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, í málinu og stofnaði í kjölfarið Borgaraflokkinn.

Þorsteinn fékk bílinn fjórum árum seinna þegar hann varð sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.

Mercedes-Benz S hefur ekki verið keyptur fyrir ráðherra frá árinu 1986, eða frá því að bíll Alberts var keyptur.

Ítarleg umfjöllun um umtalaða ráðherrabíla er í Bílum, sérblaði Viðskiptablaðsins sem kom út á fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.