*

Bílar 22. ágúst 2019

Mercedes-Benz EQC frumsýndur

Nýr sportjeppi sem er fyrsti hreini rafbíll Mercedes-Benz verður frumsýndur hjá Öskju á laugardaginn.

Beðið hefur verið eftir hinum nýja rafbíl Mercedes-Benz EQC með mikilli eftirvæntingu í talsverðan tíma en biðin er nú loks á enda því þessi tæknivæddi sportjeppi verður frumsýndur í Bílaumboðinu Öskju nk. laugardag kl. 10-16.

EQC er fyrsti hreini rafbíllinn sem Mercedes-Benz framleiðir en mikið hefur verið fjallað um bílinn í fjölmiðlum um heim allan enda hafa fáir bílar fengið jafnmikla athygli og EQC. Þessi kraftmikli fjórhjóladrifni sportjeppi er með allt að 417 km drægi samkvæmt WLTP staðli. EQC er með rafmótora sem skila bílnum miklu afli eða alls 408 hestöflum.

Hámarkstog er 760 Nm og dráttargeta sportjeppans er allt að 1,800 kg. Bíllinn er aðeins 5,1 sekúndu upp í hundraðið. EQC er að sjálfsögðu búinn hinu tæknivædda 4MATIC fjórhjóladrifi sem hentar einstaklega vel fyrir íslenskar aðstæður. Bíllinn er fallega hannaður. Hrein form, látlausar línur og framsækin hönnun eru aðalsmerki EQC að innan sem utan.

Í innanrými bílsins er vandað til verka hvað varðar búnað, þægindi og efnisval. Bíllinn er búinn hinu margrómaða MBUX margmiðlunarkerfi og er með stóru, stafrænu mælaborði. EQC er búinn allra nýjustu aksturs- og öryggiskerfum frá Mercedes-Benz. Þrjár útfærslur verða í boði af EQC með mismunandi búnaði og munu þær kosta frá tæpum 9,3 til 11,6 milljónum króna.

Mercedes-Benz stofnaði árið 2016 nýtt vörumerki innan fyrirtækisins sem ber heitið EQ og vísar í gildi vörumerkisins „Emotion and Intelligence“. EQ mun standa fyrir framleiðslu hreinna rafbíla Mercedes-Benz. Þýski lúxusbílaframleiðandinn ætlar sér að vera kominn með allt að tíu útgáfur rafbíla árið 2022.

Mercedes-Benz er einnig að koma fram með úrval tengiltvinnbíla undir heitinu EQ Power. Þetta er þriðja kynslóð tengiltvinnbíla af gerðunum A-Class, B-Class, C-Class, E-Class og S-Class með meiri drægni og tækni en áður. Fleiri gerðir eru síðan væntanlegar í EQ Power deildinni m.a. sportjepparnir GLC og GLE.

Stikkorð: Mercedes-Benz  • rafbíll