*

Bílar 30. ágúst 2019

Mercedes-Benz EQV rafbíll á leiðinni

Í næsta mánuði verður nýr stór og rúmgóður lúxusrafbíll heimsfrumsýndur, en hann getur verið með allt að 8 farþega.

Róbert Róbertsson

Nýr Mercedes-Benz EQV verður heimsfrumsýndur á bílasýningunni í Frankfurt í næsta mánuði en þessi stóri og rúmgóði lúxusbíll er hreinn rafbíll og hannaður fyrir allt að 8 farþega. EQV var fyrst kynntur í nánast fullbúinni frumgerð á bílasýningunni í Genf í vor en er nú tilbúinn til framleiðslu.

Mercedes-Benz stofnaði árið 2016 nýtt vörumerki innan fyrirtækisins sem ber heitið EQ og vísar í gildi vörumerkisins, „Emotion and Intelligence“. EQ mun standa fyrir framleiðslu hreinna rafbíla Mercedes-Benz. EQV er annar bíllinn úr EQ línunni en sportjeppinn EQC er kominn á markað m.a. hér á landi en hann var frumsýndur hjá Bílaumboðinu Öskju nýverið.

EQV er með 90 kWh litíumíonrafhlöðu undir gólfið. Rafhlaðan skilar bílnum 205 hestöflum og drægnin er um 400 kílómetrar samkvæmt af WLTP staðli. Hægt verður að hlaða bílinn upp í allt að 80% rafhlöðu á innan við 45 mínútum.

Innanrýmið er búið fjölbreyttum möguleikum þar sem tækni, þægindi og lúxus eru allsráðandi. Hægt er að breyta sætauppstillingum en bíllinn er bæði ætlaður til einkanota og fyrirtækjareksturs.

EQV er búinn hinu margrómaða MBUX margmiðlunarkerfi og er með stóru, stafrænu mælaborði. Þá er hann einnig búinn allra nýjustu aksturs- og öryggiskerfum frá Mercedes-Benz. Samkvæmt upplýsingum frá Bílaumboðinu Öskju er EQV væntanlegur til landsins næsta sumar 2020.

Stikkorð: Frankfurt  • Mercedes-Benz  • rafbíll