*

Bílar 5. júní 2013

Mercedes Benz fornbíll til sölu á 5,3 milljónir

Bíllinn var fluttur til Íslands árið 1954, þá tveggja ára gamall.

Í gær var auglýstur til sölu Mercedes Benz 170V, árgerð 1952. Ásett verð er 5,3 milljónir króna. Bíllinn er með sex strokka vél sem skilaði 86 hestöflum þegar vélin var ný.

Bíllinn er auglýstur á vef Bílasölu Guðfinns, reyndar sagður MB 180 sem er rangt, og er sagður keyrður 63 þúsund kílómetra.

Bíllinn er meðal elstu Mercedes-Benz bifreiða í landinu, eldri bílar voru fluttir inn en eftir því sem næst verður komið hafa flestir verið fluttir út aftur.

Var framleiddur fyrst árið 1936

Mercedes Benz 170V var fyrst boðinn til sölu í febrúar árið 1936. Hann var framleiddur til ársins 1942 þegar verksmiðjurnar voru þjóðnýttar og bílaframleiðslu hætt. Þá höfðu 75 þúsund bílar verið framleiddir.

Þrátt fyrir að verksmiðjurnar hafi nánast verið jafnaðar við jörðu í lok stríðsins árið 1945 höfðu voru mótin fyrir bílinn óskemmd og framleiðsla hófst að nýju í maí 1946. Framleiðslan fór hægt af stað, aðeins 214 bílar voru framleiddir það árið.

Árið 1953 hóf Mercedes Benz framleiðslu á 180 bílnum, sem nefnist í daglegu tali Ponton. Þá þótti 170 bíllinn vera orðinn gamaldags, minni vél var sett í hann og framleiðslu svo hætt árið 1955. Eftir stríðið voru framleidd rúmlega 83 þúsund bílar. Samtals voru rúmlega 158 þúsund bílar framleiddir.