*

Bílar 8. júlí 2020

Mercedes-Benz og Nvidia í samstarf

Daimler, móðurfyrirtæki Mercedes-Benz og bandaríska tæknifyrirtækið Nvidia hafa gert með sér samstarfssamning um þróun tölvubúnaðar.

Daimler, móðurfyrirtæki Mercedes-Benz og bandaríska tæknifyrirtækið Nvidia hafa gert með sér samstarfssamning um þróun tölvubúnaðar fyrir ökutæki. Tækninni er ætlað að styðja við þróun sjálfkeyrandi bíla í framtíðinni með sérstakri áherslu á öryggi, þægindi og upplifun notenda.

Mercedes-Benz mun útfæra tæknibúnað sinna bíla byggða á Nvidia Drive tölvutækni fyrir allar gerðir fólksbíla frá og með árinu 2024.

,,Samstarf okkar við Nvidia mun hjálpa okkur að þróa áfram sjálfkeyrandi bíla. Með nýjustu tækni vinnum við saman að því að auka öryggi, þægindi og upplifun viðskiptavina Mercedes-Benz.“ sagði Ola Kallenius, forstjóri Daimler í sameiginlegri yfirlýsingu frá Daimer og Nvidia.

Samstarfinu er ætlað að tryggja að tækninýjungar nái til hönnunar bíla framtíðarinnar. Ekki aðeins með það í huga að bílar geti keyrt sjálfir, heldur geti lesið í hegðun manna og haft samskipti við umhverfi sitt. Ný tækifæri felast jafnframt í vörukaupum og þjónustu í bílnum.

„Við erum spennt fyrir samstarfinu með Mercedes-Benz. Með því að samnýta þekkingu og sýn fyrirtækjanna á nýsköpun og tækni stefnum við að því að gjörbylta akstursupplifun framtíðarinnar.“ sagði Jensen Huang, stofnandi og forstjóri Nvidia.