*

Bílar 6. janúar 2013

Mercedes Benz SL - 2. kynslóðin

Önnur kynslóðin fékk viðurnefnið Pagoda. Tvöfalt fleiri eintök seldust en af fyrri kynslóð.

Mercedes Benz 230 SL (W113) var kynntur á bílasýningunni í Genf árið 1963. Þakið á bílnum minnir á japanskt hof og fékk hann því viðurnefnið Pagoda.

Hönnuðir bílsins lögðu mikla áherslu á þægindi og sportlega eiginleika bílsins. Fjögurra þrepa sjálfskipting var nýjung sem aukabúnaður og bíllinn var fyrstur bíla sinnar tegundar með öryggisklefa í kringum farþegarýmið.

Í fyrstu var bíllinn boðinn með 2,3 lítra vél eða fram til ársins 1967 þegar 250 SL útgáfan fór í framleiðslu. Árið eftir bauð Mercedes svo upp á 280 SL sem varð vinsælasta gerðin.

Framleidd voru 48.912 eintök af annari kynslóðinni af SL bílnum árin 1963-1971. Þar af voru 19.440 eintök seld í Bandaríkjunum.

Mercedes Benz SL sportbíllinn á sér 60 ára sögu.