*

Bílar 7. janúar 2013

Mercedes Benz SL - 4. kynslóðin

Í fyrsta sinn var boðið upp á V12 vél í SL bílnum sem skilaði 525 hestöflum. Útlitslega bólgnuðu Benzarnir á árunum í kringum 1990.

Miklar breytingar urðu á útliti Mercedes Benz bílanna í kringum 1990. Fínlegu línurnar hurfu og bílarnir bólgnuðu út. Fyrstur var E bíllinn (1986) og svipaðar breytingar urðu einnig á SL (R129) og S bílnum.

SL-inn þyngdist um 200-300 kg og var 1.800 til 2.200 kg eftir vélarstærð. Þrátt fyrir það var krafturinn til staðar og í fyrsta sinn var boðið upp á V12 vél, sem var 7,3 lítra og skilaði 525 hestöflum.

Bíllinn var mjög straumlínulagaður og því vindmótstaðan með minnsta móti. Blæjan var í fyrsta sinn sjálfvirk en það tekur um 30 sekúndur að reisa hana og fella.

Mikil þróun var í öryggisbúnaði milli kynslóða. R129 er með sjálfvirkri veltislá sem skýst upp á aðeins 0,3 sekúndum við tiltekinn halla. Sætin í bílnum eru sérstyrkt og því þola þau bæði mikla þyngd og þung högg.

Bíllinn var framleiddur frá 1989-2001, var eftirsóttur og seldist í 204.940 eintökum. 

Fínlegar línur véku fyrir breiðum. Bíllinn var kallaður Muscle Mercedes í Bandaríkjunum.

Stokkarnir í kringum framsætin eru sérstyrktir og eiga að þola margfalt álag við veltu.