*

Bílar 13. janúar 2013

Mercedes Benz SL - fimmta kynslóðin

Öflugasta útgáfan af bílnum var 604 hestöfl. Bíllinn léttist verulega vegna þess að margir íhlutir voru úr áli.

5. kynslóðin Mercedes Benz SL (R230), sem var framleidd árin 2001-2011, var kynnt sumarið 2001.

Þá komu fram nýjungar sem voru langt á undan sinni samtíð. Ál var m.a. notað í þakið, hurðir og stuðara og við það léttist bíllinn verulega.

Öryggisbúnaður eins og SBC kerfið (e. Sensotronic Brake Control) jók stöðugleika við akstur og hemlun verulega.

Fram að þessu fylgdi blæjuútgáfunni einnig harður toppur. Þótt ekki hafi verið mjög flókið að setja toppinn á var það fyrirhöfn. Fimmta kynslóðin var búin fellanlegu þaki. Á aðeins 16 sekúndum hvarf toppurinn niður í skottlokið og bíllinn var orðinn opinn „blæjubíll“.

Öflugasta útgáfan var SL65 AMG bíllinn sem kom með 6 lítra V12 vél sem skilaði 604 hestöflum.

Fjárkreppan setti talsvert mark á sölu bílsins sem seldist í 169.433 eintökum, umtalsvert minna en 4. kynslóðin.

Framendinn breyttist töluvert árið 2007. Þessi bíll er AMG útgáfa.