*

Bílar 31. janúar 2018

Mercedes-Benz söluhæsta lúxusbílamerkið

Heildarsala Mercedes-Benz í heiminum árið 2017 nam 2,3 milljónum fólksbíla, en 522 þeirra voru seldir hér á landi.

Mercedes-Benz er söluhæsta lúxusbílamerkið í heiminum en alls seldust 2.289.344 Mercedes-Benz fólksbíla á árinu 2017. Mercedes-Benz jók sölu sína um 9,9% á milli ára en BMW er í öðru sæti með 2.088.283 selda bíla á heimsvísu og jók sölu sína um 4,2% á milli ára. Þýsku lúxusbílamerkin frá Stuttgart og Bæjaralandi hafa því bæði bætt við sig í sölu þótt Stuttgart hafi vinninginn.

Mercedes-Benz er einnig söluhæsta lúxusbílamerkið á Íslandi enn eitt árið en alls seldi Bílaumboðið Askja 522 Mercedes-Benz fólksbíla á árinu 2017. Mercedes-Benz hefur verið mest seldi lúxusbíllinn á Íslandi frá árinu 2013 og eykur enn á forskotið. Í samanburði við þýsku lúxusbílamerkin BMW og Audi er Mercedes-Benz með 48,38% markaðshlutdeild hér á landi en fjöldi af seldum Mercedes-Benz sambærilegur og Audi og BMW til samans á síðasta ári.

Sportjepparnir GLC og GLE voru vinsælastir af Mercedes-Benz bílum hér á landi en alls seldust tæplega 200 nýir bílar af þessum tveimur tegundum. GLC 350e í Plug-in Hybrid útfærslu var söluhæsta einstaka tegundin en 57 slíkir bílar voru nýskráðir á síðasta ári. GLE 500e var í öðru sæti með alls 44 nýskráningar.

Stikkorð: Askja  • lúxusbílar  • Mercedes-Benz  • fólksbílar