*

Bílar 22. júlí 2018

Mercedez-Benz eActros á markað

Nýr Mercedes-Benz eActros er kominn á markað en þessi stóri flutningabíll er nú orðinn hreinn rafbíll.

Róbert Róbertsson

Nýr Mercedes-Benz eActros er kominn á markað en þessi stóri flutningabíll er nú orðinn hreinn rafbíll. Mercedes-Benz setur tíu nýja eActros flutningabíla á götuna á næstu vikum. Ætlunin er að prófa bílana í og utan borgarmarka til að sjá hvernig stórir rafknúnir flutningabílar koma út í raunverulegum aðstæðum.

Bílarnir tíu verða í tveimur útfærslum, 18 og 25 tonna, og allir hreinir rafbílar. Þeir verða með akstursdrægni upp að 200 km á rafmagninu og með engan útblástur. Bílarnir eru búnir tveimur lithium-ion rahlöðum sem skila 240 kWh og hámarkstogið er 485 Nm.

Fleiri rafbílar á leiðinni

Mercedes-Benz varð fyrsti bílaframleiðandinn í heiminum til að kynna rafmagnsatvinnubíl á IIA atvinnubílasýningunni í Hamborg árið 2016. Mercedes-Benz er stærsti atvinnubílaframleiðandi heims og hyggst á næstunni koma fram með fleiri atvinnurafbíla, m.a. sendibílana vinsælu Vito og Sprinter. Þeir munu bera heitin eVito og eSprinter og verða hreinir rafbílar. Fyrstu bílarnir verða afhentir kaupendum strax á næsta ári. Þá mun Mercedes-Benz einnig hefja framleiðslu á rafmagnsstrætisvagninum Citaro. Strætisvagninn hefur engan útblástur og er sérlega hljóðlátur, enda hreinn rafbíll. Þróun á strætisvagninum er nú í fullum gangi hjá Mercedes-Benz og eru ýmsar prófanir nú þegar í gangi á bílnum. Hinn nýi Citaro verður með háþróaða rafmótora og lithium-ion rafhlöður. Þessi 100% rafknúni strætisvagn frá MercedesBenz er væntanlegur á markað í lok ársins.

Framleiðsla á þessum nýju og rafdrifnu atvinnubílum Mercedes-Benz verður bylting í samgöngutækni í borgum og bæjum að mati forsvarsmanna Daimler AG, eiganda þýska bílaframleiðandans, enda eru atvinnubílarnir bæði hagkvæmir og sérlega umhverfisvænir.

Stikkorð: Mercedez-Benz