*

Bílar 24. október 2019

Merki Benz verðmætasta lúxusbílamerkið

Þríhyrnda stjarna Mercedes-Benz er metið verðmætasta vörumerki lúxusbifreiða, en félagið er metið á 50 milljarða dala.

Róbert Róbertsson

Þríhyrnda stjarnan, merki Mercedes-Benz, er verðmætasta vörumerkið í lúxusbílaflokki að mati Interbrand stofnunarinnar. Þýski lúxusbílaframleiðandinn er í áttunda sæti yfir verðmætustu vörumerki heimsins og eina merkið frá Evrópu sem kemst á listann.

Mercedes-Benz er metið á rúmlega 50 milljarða dollara og jókst verðmæti fyrirtækisins um 5% á síðasta ári. Toyota og Mercedes-Benz eru einu vörumerk­in úr bílaiðnaðinum sem komust í hóp 10 verðmætustu vörumerkja heims hjá In­ter­brand en Toyota er í sjöunda sæti listans og metið á rúmlega 56 milljarða dollara. Apple, Google og Amazon eru í þremur efstu sætum Interbrand listans yfir verðmætustu vörumerkin.

„Þetta er mikil viðurkenning og við erum mjög stolt að hafa haldið áttunda sætinu annað árið í röð á þessum eftirsóknarverða lista Interbrand og aukið verðmæti fyrirtækisins um 5%, sérstaklega með tilliti til þess að það hafa verið erfiðir tímar í bílageiranum um allan heim. Þetta staðfestir að Mercedes-Benz býður upp á framúrskarandi bíla og þjónustu,“ segir Bettina Fetzer, markaðsstjóri Mercedes-Benz.

Stikkorð: Interbrand  • Mercedes-Benz  • Bettina Fetzer