*

Hitt og þetta 26. september 2007

Merkurpoint býður upp á MerkurPOS

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Merkurpoint býður upp á verslunarlausnina MerkurPOS, sem er hugbúnaður sem leysir af hólmi gömlu sjóðsvélarnar en bætir jafnframt við birgðabókhaldi, viðskiptamannabókhaldi, greiningartólum og ýmsum öðrum sérkerfum. Frá þessu er sagt í Viðskiptablaðinu í dag.

Kerfið er hannað frá grunni hjá Merkurpoint og hefur Yngvi Þór Jóhannsson, framkvæmdastjóri Merkurpoint, unnið í því frá upphafi og segist líta á það sem barnið sitt. "Við byrjuðum að þróa MerkurPOS kerfið af fullum krafti árið 2002, en ástæða þess að farið var út í þróun á viðskiptahugbúnaði sem þessum var að mikil vöntun var á markaði eftir einföldu og góðu afgreiðslukerfi sem myndi henta minni verslunum og þjónustufyrirtækjum sem gerði þeim kleift að nýta sér upplýsingatæknina á sama hátt og áður hafði aðeins verið á færi stórra verslana. Ég hef alltaf haft skýra sýn á þróun og stefnu MerkurPOS. Við leggjum mestu upp úr viðmótinu og því að kerfið sé ekki óþarflega flókið fyrir notandann. Í verslunum getur starfsmannavelta verið mikil og því mikilvægt að hver sem er geti fljótt og örugglega byrjað að nota kerfið. Þegar tekin er í notkun nýr rekstrarhugbúnaður þá lendir notandinn oft í því að þurfa laga sig að kerfinu, en það sættum við okkur ekki við. Okkar vilji er að kerfið okkar lagi sig að því hvernig notandinn vinnur og hefur okkur tekist að gera það með góðu samstarfi við viðskiptavini okkar," segir Yngvi.

Kerfinu er skipt upp í tvo hluta: annars vegar afgreiðslukerfi þar sem öll sala fer fram og hins vegar bakvinnslukerfi þar sem öll umsjón fer fram, svo sem birgðatalning, vörupantanir, verðbreytingar, vörugreiningar og fleira. Afgreiðslustöðin sjálf er byggð upp af snertiskjátölvu, kvittanaprentara og strikamerkjalesara. "Með afgreiðslukerfinu flýtir þú gríðarlega fyrir afgreiðslu, til dæmis með því að nota rafrænan greiðsluposa og strikamerktar vörur, auk þess að auka þjónustustigið til muna, enda einfalt til dæmis að athuga hvort vörur séu til á lager án þess að þurfa að leita í kössum og hillum," segir Yngvi.

Kerfið heldur síðan utanum alla sölu og fylgist með birgðastöðu, stöðu viðskiptamanna, inneignanótna, gjafabréfa og síðan má nota þessar upplýsingar í greiningar, til að útbúa pantarnir og fleira. Merkurpoint býður einnig upp á ýmis sérkerfi, eins og til dæmis veitingahúsakerfi sem byggir á sama grunni en hefur að auki ýmsa virkni sem er sérhönnuð fyrir veitingahús, þar má nefna myndræna framsetningu af matsalnum til að skrá pantarnir á borð.

Yngvi segir kerfið hafa gríðarlega mikil áhrif á rekstur verslana og sé nauðsynlegt fyrir þá sem hafi áhuga á að ná sem mestu út úr rekstrinum. "Fyrir utan það að flýta fyrir og auka þjónustustigið þá erum við að tala um allt aðra og nýja yfirsýn yfir reksturinn. Þú getur allt í einu séð hvaða vörur eru að seljast best, hvar þú ert að græða og hverju ertu að tapa á. Stundum hefur komið í ljós að vara er alls ekki að seljast og við nánari athugun kemur svo í ljós að hún er einfaldlega illa staðsett í versluninni. Þannig er hægt að nota söluupplýsingar til að undirbúa háannatíma með því að taka mið af fyrri jólum má til dæmis áætla hve mikið þarf að kaupa inn af þessum vörum fyrir næstu jól. Rýrnun er annað sem hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið og talið er að starfsmenn beri ábyrgð á nokkuð stórum hluta vörurýrnunar, svona kerfi eykur aðhald og sýnir strax ef vörur eru að hverfa." segir Yngvi.

Kerfið hentar velflestum sem eru í verslun og þjónustu og er nú meðal annars í veitingahúsum, hárgreiðslu- og snyrtistofum, efnalaugum, pizzastöðum og videoleigum. "Í upphafi var kerfið hannað með hag minni og meðalstórra verslana í huga, en miklar breytingar hafa orðið á kerfinu síðustu ár sem gera okkur kleift að þjóna stærri viðskiptavinum og verslunarkeðjum, nú síðast tenging við Microsoft Dynamics NAV eða Navision frá Maritech, sem opnar fleiri spennandi möguleika á stærri markaði," segir Yngvi. Nýlega var gefin út ný útgáfa af kerfinu, MerkurPOS 3.0, en í henni eru heilmiklar viðmótsbreytingar, ný miðlæg afritunarlausn innbyggð í kerfið og öflugt bilanagreiningakerfi sem gefur þjónustuaðilum fyrirtækisins til kynna ef eitthvað bilar.

Hann segir að Merkurpoint hafi alltaf gætt þess að halda kerfinu einföldu í notkun þó virknin sé flókin. "Þú þarft ekki að vera sérfræðingur í bókhaldi eða vörustjórnun til að kerfið nýtist þér," segir Yngvi.

Yngvi segir viðtökurnar hafa verið frábærar. "Við erum ekki stórt fyrirtæki og eyðum ekki miklu í auglýsingar og kynningar, en það skilar sér í verði til viðskiptavina. Kerfið hefur í gegnum tíðina selt sig nánast sjálft án kostnaðarsamrar markaðssetningar, því ánægðir viðskiptavinir hafa bent á okkur og selt kerfið áfram til annarra," segir Yngvi.

Hann segir stefnuna tekna á að markaðssetja kerfið erlendis og og bindur hann vonir við að verslanir með MerkurPOS spretti upp í Danmörku og Bretlandi innan skamms. En fyrirtækið hefur átt í viðræðum við verslanir þar að undanförnu, einnig mun fyrirtækið vera að vinna að nýju verkefni sem verður kynnt síðar.