*

Sport & peningar 31. desember 2012

Mest lesið á árinu: Sport og Peningar

Fjárhagslega hliðin á Annie Mist vakti mikla athygli en hún sigraði fyrst allra heimleikana í Crossfit tvö ár í röð.

Nú þegar árið er á enda er ekki úr vegi að rifja upp mest lesnu fréttirnar sem flokkast undir Sport og Peninga á vef Viðskiptablaðsins, vb.is, á árinu. Hér má finna stutta upprifjun um fimm mest lesnu fréttirnar sem þar birtust.

5. Gylfi Þór fær um hálfan milljarð í árslaun

Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson, skrifaði undir samning við enska liðið Tottenham, og varð þar með langlaunahæsti íslenski knattspyrnumaðurinn. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins fær Gylfi Þór um 50 þúsund pund á viku í laun hjá Tottenham, eða um 9,9 milljónir króna. Það þýðir að árslaun Gylfa Þórs verða um 516 milljónir króna hjá félaginu.

4. Aflýsing ÓL2012 myndi kosta 650 milljarða króna

Það hefði kostað um 5 milljarða Bandaríkjadala, eða tæpa 650 milljarða króna, að aflýsa Ólympíuleikunum í Lundúnum sem fram fóru í sumar að mati tryggingafélagsins Munich Re. Lagt var mat á og áætlað hvað það myndi kosta að aflýsa leikunum, t.d. vegna hryðjuverkaárásar, náttúruhamfara eða af öðrum ástæðum.

3. Hlauparinn Bolt þarf ekki að hafa áhyggjur af tekjum

Hinn víðfrægi íþróttamaður Usain Bolt þénar svo sannarlega í hlutfalli við bæði árangur og þá umfjöllun sem hann fær. Viðskiptablaðið leit á hve háar tekjur hans voru en samkvæmt Forbes eru þær um 20 milljónir dollara á ári.

2. Boot Camp undirbýr flutninga - Myndir

Unnið var hörðum höndum að því að klára nýtt 1.400 m2 húsnæði Boot Camp í Elliðaárdal þar líkamsræktarstöðin var að koma sér fyrir. Boot Camp hafði í 5 ár verið á Suðurlandsbraut (þar sem Gym 80 var áður til húsa). Viðskiptablaðið tók stöðuna á flutningunum og ræddi meðal annars við Arnald Birgi Konráðsson, framkvæmdastjóra og annars eigenda Boot Camp.

1. Fjárhagslega hliðin á Annie Mist

Farið var yfir fjárhagslegu hliðin á velgengi Annie Mist Þórisdóttir í Crossfit þar sem hún fór á kostum. Annie Mist sigraði heimleikana í CrossFit, annað árið í röð. Þetta var í fyrsta sinn frá því að CrossFit leikarnir voru haldnir árið 2007 sem sami einstaklingurinn sigrar tvö ár í röð.

Annie Mist hlaut 250 þúsund dali í verðlaunafé, sem gerir um 32 milljónir króna á þáverandi gengi. Í fyrra fékk hún sömu upphæð í verðlaun, sem var á þáverandi gengi um 28,5 milljónir króna. Samanlagt verðlaunafé fyrir að vera heimsmeistari í flokki kvenna í CrossFit tvö ár í röð er því um 60,5 milljónir króna.